Þingflokksfundur fer fram hjá Framsóknarflokknum á eftir en að sögn Gunnars Braga Sveinssonar, þingsmanns flokksins, hefur ekkert verið rætt um stöðu mála á hinu pólitíska sviði, eftir atburði gærdagsins og næturinnar, innan þingflokksins ennþá.
Hann sagði Framsóknarmenn rólega yfir stöðunni, enda beinist spjótin að ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum.
Ekkert hefur heyrst frá Sjálfstæðisflokknum ennþá, en fundað var linnulaust í nótt eftir að Björt framtíð kom þeim skilaboðum formlega áleiðis til flokksins og Viðreisnar, samstarfsflokkanna í ríkisstjórn, að Björt framtíð ætlaði sér að slíta sig frá stjórnarsamstarfinu.
Eins og fram kom í fréttaskýringu sem birtist á vef Kjarnans í nótt, þegar titringurinn var sem mestur, þá komu skilaboðin frá Bjartri framtíð eins og köld vatnsgusa framan í forystu flokksins.
Nú þegar hafa þau sjónarmið komið skýrt frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, Óttarri Proppé, heilbrigðisráðherra og þingmanni Bjartrar framtíðar, Benedikti Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, og Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanni Pírata, að kosningar ættu að vera næst á dagskrá.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir í samtali við mbl.is, að hann telji líklegast - ekki síst í ljósi þess hvernig tilraunir til ríkisstjórnarmyndunar gengu fyrir sig síðast - að gengið verði til kosninga.