Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson mun eiga fundi með forystumönnum stjórnmálaflokka, sem eiga fulltrúa á Alþingi, á Bessastöðum á morgun laugardaginn 16. september, að loknum fundi með Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins.
Þetta kemur framí tilkynningu frá forsetanum. „Klukkan 13:00 fundar Guðni með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs; klukkan 13:45 á hann fund með Birgittu Jónsdóttur, formanni þingflokks Pírata; klukkan 14:30 er fundur forseta með Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins; 15:15 á forseti fund með Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar; klukkan 16:00 hefst fundur forseta með Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar; og klukkan 16:45 á forseti fund með Loga Má Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar,“ segir í tilkynningunni.
Leiðtogar flokkanna hafa einn af öðrum talað um það í dag, að farsælast sé í stöðunni sem komin er upp, eftir að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar féll, að boða til kosninga. Bjarni sagði á blaðamannafundi í Valhöll í dag, að hann teldi skynsamlegast að kjósa í nóvember.