Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segist geta skilið að mönnum finnist það mál sem sprengdi ríkisstjórnina í gær sé trúnaðarbrestur. „En það er það ekki, og það var það ekki.“ Hún segir að sér hafii ekki verið stætt á að gera það að birta gögn í málum manna sem sótt hafa um uppreist æru áður vegna þess að málið var í meðferð hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þetta kom fram í viðtali við hana í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu vegna málsins í nótt og bar fyrir sig trúnaðarbrest. Sigríður segir að viðbrögð hennar séu tregablandin. Ákvörðunin hafi komið sér á óvart og valdi sér miklum vonbrigðum. „ „Mér finnst þetta lýsa stórkostlegu ábyrgðarleysi af hendi þessa litla flokks.“ Henni finnst að Björt framtíð hafi átt að gefa Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra tækifæri á að tjá sig um málið. „Mér finnst ömurlegt að menn ætli að nýta sér mál af þessum toga.“ Tilkynning Bjartrar framtíðar sýni að flokknum hafi aldrei verið nein alvara með því að axla ábyrgð á ríkisstjórnarsamstarfi. Sigríður staðfesti að hún hefði rætt við Bjarna í gærkvöldi og í nótt.
Stjórn Bjartrar framtíðar ákvað í nótt að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, vegna alvarlegs trúnaðarbrests, að því er fram kom í tilkynningu. Ráðherrar Bjartrar framtíðar, Óttarr Proppé og Björt Ólafsdóttir, greindu forystumönnum samstarfsflokkanna, Sjálfstæðisflokki og Viðreisn, frá þessu seint í gærkvöld.
Stjórn Bjartrar framtíðar kom saman í gærkvöld til að ræða stöðuna sem komin er upp eftir að í ljós kom að faðir forsætisráðherra, Benedikt Sveinsson, skrifaði undir meðmælabréf með beiðni Hjalta Sigurjóns Haukssonar um að hann fengi uppreist æru.
Samtals voru 87 prósent stjórnarmanna hjá Bjartri framtíð hlynntir því að slíta samstarfinu.
Sigríður segir að það hafi verið full ástæða til þess að ræða það við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra að faðir hans hefði skrifað undir meðmælabréfið, en Sigríður upplýsti um það í gær að hún hefði gert það í júlí. Menn hljóti að sjá það og ekki hafi verið ástæða til þess að ræða þetta mál við aðra ráðherra. Engin mál í ráðuneytunum séu undanskilin því að forsætisráðherra eigi að fá upplýsingar. Hún segist hafa verið a ræða við Bjarna bæði sem formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.