Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, lýsti trúnaðarbrestinum sem olli því að ríkisstjórn Íslands er fallin í sjónvarpinu í hádeginu í dag.
Trúnaðarbresturinn fólst í því að dómsmálaráðherra upplýsti forsætisráðherra um stöðu í mjög viðkvæmu máli í júlí. Ljóst var að mælirinn var fullur þegar upp komst að tveir mánuðir höfðu liðið frá því að Bjarni Benediktsson fékk vitneskju um málið og þar til almenningur og samstarfsflokkar höfðu verið upplýst.
Óttarr var í samtali í aukafréttatíma RÚV í hádeginu í dag þar sem hann lýsti þessu.
Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn í nótt vegna þess að faðir forsætisráðherra undirritaði meðmæli með barnaníðingi um að hann fengi uppreisn æru.
„Ég stóð í þeirri trú að þetta væri eitthvað sem var að koma í ljós,“ sagði Óttarr sem fékk fyrst að vita af meðmælum föður forsætisráðherra á fundi með Bjarna Benediktssyni og Benedikt Jóhannessyni á mánudag.
Spurður hvort það hafi verið fljótfærni að slíta stjórnarsamstarfinu segir Óttarr að svo hafi ekki verið. Hann hafi verið í símasambandi við Bjarna þar sem hann ræddi þessi mál áður en stjórnarfundur var haldin í Bjartri framtíð í gærkvöldi.
Grunnprinsipp Bjartrar framtíðar hafi verið brotin og þess vegna segist Óttarr vera enn sannfærðari núna um að þetta hafi verið rétt ákvörðun af hálfu flokks hans en í gærkvöldi.
Hann segir stöðuna ekki vera orðna þannig að hægt sé að segja til um hvað muni verða í framhaldinu. Óttarr vildi ekki skjóta fyrir það loku að Björt framtíð myndi verja minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar falli.