Þingflokkur Viðreisnar vill að boðað verði til kosninga sem fyrst. Í yfirlýsingu segir að það sé skylda stjórnvalda gagnvart almenningi að vinnubrögð standist stranga skoðun, í málum er varða uppreist æru og alvarlega glæpi eins og þá sem rætt var um í gær. „Fréttir gærdagsins af málsmeðferð um uppreist æru hafa vakið sterk viðbrögð innan raða Viðreisnar, líkt og í samfélaginu öllu. Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið. Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varðar. Í ljósi stöðunnar sem nú er komin upp telur þingflokkur Viðreisnar réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta,“ segir í tilkynningu þingflokksins.
Eins og frá hefur verið greint, þá ákvað stjórn Bjartrar framtíðar að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, vegna alvarlegs trúnaðarbrests, að því er fram kemur í tilkynningu. Ráðherrar Bjartrar framtíðar, Óttarr Proppé og Björt Ólafsdóttir, greindu forystumönnum samstarfsflokkanna, Sjálfstæðisflokki og Viðreisn, frá þessu seint í gærkvöldi.
Stjórn Bjartrar framtíðar kom saman til að ræða stöðuna sem komin er upp eftir að í ljós kom að faðir forsætisráðherra, Benedikt Sveinsson, skrifaði undir meðmælabréf með beiðni Hjalta Sigurjóns Haukssonar um að hann fengi uppreist æru. Frá því var fyrst greint á vef Vísis.
Samtals voru 87 prósent stjórnarmanna hjá Bjartri framtíð hlynntir því að slíta samstarfinu.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði í kvöld, í viðtali við Stöð 2, að hún hefði upplýst Bjarna Benediktsson forsætisráðherra um þetta í júlí.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var strax ljóst, í upphafi fundar, að kraumandi óánægja var með stöðu mála innan ríkisstjórnarinnar, og að Björt framtíð gæti ekki haldið áfram ríkisstjórnarsamstarfinu undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Í viðtalinu við Stöð 2 í kvöld sagði Sigríður að embættismenn hefðu greint henni frá því í lok júlí að faðir Bjarna væri á meðal umsagnaraðila Hjalta. Hún hefði talið rétt að láta forsætisráðherra vita af því.
„Hann kom algjörlega af fjöllum,“ sagði Sigríður í viðtali við Stöð 2 og Vísi.
Dómsmálaráðuneytið hefur enn ekki birt gögnin um votta þeirra sem hafa fengið uppreist æru, líkt og úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál segir til um. Einungis hafa verið birt gögnin í máli Roberts Downey, sem var til umfjöllunar í fyrrnefndu máli. En upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, Jóhannes Tómasson, hefur upplýst um að unnið sé að því.