Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefur ákveðið að stíga til hliðar sem talsmaður flokksins í málum sem snúa að uppreist æru. Frá þessu var greint í fréttum RÚV í gærkvöldi, og var það Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem gerði það.
Ástæða þess að hann gerir þetta er mikill skyldleiki við Benedikt Sveinsson, föður Bjarna Benediktssonar, en eins og kunnugt er skrifaði hann meðmælabréf vegna umsóknar Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmds barnaníðings, um að fá uppreist æru.
Benedikt Jóhannesson og Benedikt Sveinsson eru systkinasynir.
Núverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, þau Bjarni Benediktsson og Sigríður Andersen, geta ekki setið áfram á ráðherrastólum á meðan á rannsókn málsins stendur, segir í ályktun ráðgjafaráðs Viðreisnar sem birtist á vef flokksins eftir að blaðmannafundi Bjarna Benediktssonar lauk síðdegis í dag.
Ráðgjafaráð Viðreisnar er skipað stjórn Viðreisnar, þingflokknum, formönnum málefnanefnda og stjórnum landshlutaráða. Ráðið var kallað saman í gær. Í ljósi „þeirrar alvarlegu stöðu og trúnaðarbrests sem kominn er upp,“ telur ráðgjafaráðið farsælast fyrir þjóðina að þing sé rofið og gengið sé til kosninga að nýju.
Í ályktuninni segir einnig að Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, verði að víkja sæti.