Nú er líklegra að kosið verði laugardaginn 28. október, en áður hafði verið rætt um 4. nóvember, eða viku síðar. Hvort sem verður, þá er ljóst að stutt og snörp - og líklega hörð - kosningabarátta er framundan.
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, hefur ákveðið að reglulegir fundir formanna þingflokka og forsætisnefndar falli niður á morgun. Boðaður hefur verið fundur klukkan 12:30 þar sem Unnur Brá ætlar að funda með leiðtogum flokkanna um framhald þingstarfa.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir fundi með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, til að leggja fram tillögu um þingrof. Fundur þeirra er fyrirhugaður á Bessastöðum á morgun, en Guðni hefur verið í nánu sambandi við leiðtoga flokkanna alla helgina.
Fari svo að kosningar verði 28. október þá er það næstum upp á dag ári síðar en síðustu þingkosningar, en þær fóru fram 29. október.