Í nýrri könnun á vegum Zenter rannsókna sem framkvæmd var dagana 15. til 18. september kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn mælast með mest fylgi.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Zenter.
Samkvæmt niðurstöðunum mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 26,4% fylgi samanborið við 29,0% í Alþingiskosningunum 2016. Fylgi Vinstri grænna hækkar frá kosningunum 2016 og mælist nú með 22,8% borið saman við 15,9% árið 2016. „Miðað við 95% öryggisbil er hins vegar ekki marktækur munur á milli flokkanna tveggja,“ segir í tilkynningunni.
Píratar mælast með 12,5% fylgi borið saman við 14,5% atkvæða í síðustu kosningum. Framsóknarflokkurinn mælist með 10,5% fylgi borið saman við 11,5% í kosningunum 2016.
Flokkur fólksins bætir við sig síðan 2016 og mælist nú með 9,6% borið saman við 3,5% í síðustu kosningum. Samfylkingin mælist með 9,0% samanborið við 3,5% árið 2016 og Björt framtíð mælist með 5,6% fylgi en fékk 7,2% atkvæða í kosningunum 2016. Loks mælist Viðreisn með 2,7% fylgi en flokkurinn fékk 10,5% atkvæða í síðustu kosningum.
Kosið verður 28. október næstkomandi næstum sléttu ári frá síðustu kosningum. Þær fóru fram 29. október í fyrra.
Íslendingar 18 ára og eldri af landinu öllu voru spurðir í könnuninni og tóku 956 einstaklingar þátt. Könnunin var framkvæmd á netinu meðal könnunarhóps Zenter rannsókna, að því er fram kemur í tilkynningu.