Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, er orðinn formaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í stað Brynjars Níelssonar. Jón Steindór var kjörinn í upphafi fundar nefndarinnar í morgun.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og Jón Steindór, þingmaður Viðreisnar, hefur verið fyrsti varaformaður.
Jón Steindór tilkynnti um þetta í upphafi opins fundar í nefndinni þar sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra er gestur og ræðir uppreist æru. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, er orðin fyrsti varaformaður nefndarinnar.
Brynjar Níelsson er ekki viðstaddur fundinn en hávær krafa hefur verið um það meðal annara þingmanna að hann myndi víkja úr formannssæti nefndarinnar á meðan hún fjallar um uppreist æru. Brynjar hefur lagt áherslu á að einstök mál yrðu ekki rædd í nefndinni og upplýsingar um uppreist æru ekki birtar.
Vefur Alþingis hefur ekki enn verið uppfærður með þessum upplýsingum. Ekki fást upplýsingar um hvort Brynjar hefur vikið úr sæti sínu endanlega úr nefndinni. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, situr fundinn í dag en hann hefur ekki átt sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hingað til.