Eygló Harðardóttir tilkynnti á Facebook-síðu sinni í morgun að hún muni ekki gefa kost á sér til þingstarfa fyrir Alþingiskosningarnar þann 28. október næstkomandi.
„Í nóvember 2008 tók ég sæti á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins við erfiðar aðstæður í miðju bankahruni. Árin síðan hafa verið einstaklega viðburðarrík og árangurinn af vinnu við efnahagslega endurreisn íslensks samfélags hefur verið mikill.
Þar hef ég verið stolt af baráttu okkar framsóknarmanna gegn skuldum, hvort sem það eru skuldir heimilanna eða sá skuldaklafi sem erlendir kröfuhafar vildu hengja á þjóðarbúið. Ég er jafnframt einkar stolt af að hafa sem félags- og húsnæðismálaráðherra komið á nýju húsnæðiskerfi, bætt hag lífeyrisþega og unnið gegn ofbeldi í íslensku samfélagi,“ segir hún.
Hún segist jafnframt lengi hafa verið sannfærð um að þingmennska eigi ekki að vera ævistarf og talað fyrir stjórnarskrárbreytingum um að hver þingmaður sæti ekki lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Í nóvember 2017 verða þau ár orðin níu hjá henni. Því telji hún rétt á þessum tímapunkti að láta staðar numið og leita nýrra og skemmtilegra ævintýra á öðrum vettvangi.
„Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa stutt mig í mínum störfum í gegnum árin, kjósendum fyrir það traust og trúnað sem þeir hafa veitt mér til að starfa í þeirra þágu, góðum félögum út um allt land fyrir gott samstarf og síðast en ekki síst fjölskyldu minni. Það er von mín að komandi kosningabarátta verði jákvæð og heiðarleg og að samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins muni þar ná góðum hljómgrunni,“ segir hún.
Eygló var þingmaður Suðurkjördæmis frá árinu 2008 til 2013 og Suðvesturkjördæmis síðan 2013 fyrir Framsóknarflokkinn. Hún var félags- og húsnæðismálaráðherra 2013 til 2017 og samstarfsráðherra Norðurlanda 2013 til 2017.