Til greina kemur að nýta ósöluhæfar eignir Lindarhvols ehf., félags íslenska ríkisins sem heldur á eignum sem komu í fang þess frá slitabúum föllnu bankanna, til þessa að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar ríkisins. Þannig mætti hámarka virði þeirra fyrir ríkissjóð.
Þetta kemur fram í greinargerð um starfsemi Lindarhvols til Alþingis. Í greinargerðinni er fjallað um starfsemi Lindarhvols í stórum dróttum, og hvernig hefur fengið að vinna úr þeim eignum sem komu til ríksins í gegnum stöðugleikaframlag frá slitabúunum.
Risavaxnar fjárhæðir
Óhætt er að segja að skattgreiðendur eigi mikla hagsmuni í starfsemi Lindarhvols og að þar sé vandað til verka við hámarka virði eigna. Í fang ríkisins komu eignir upp á 384,3 milljarða króna, mest munaði þar um 95 prósent eignarhlut í Íslandsbanka og veðskuldabréf og afkomuskiptasamningur vegna Arion banka, upp á samtals ríflega 105 milljarða króna.
Aðrar eignir nema, þar á meðal hlutafjáreignir, lán og aðrar eignir, nema tæplega 100 milljörðum króna. Allt laust fé sem borist hefur félaginu rennur inn á reikning félagsins hjá Seðlabanka Íslands.
Í greinargerðinni segir að samtals hafi um 140 milljarðar króna runnið inn á reikninginn í Seðlabankanum frá því árið 2016. „Frá því í febrúar 2017 og fram til ágústloka hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn numið 56.448 milljónum króna. Staðan á reikningnum þann 3. febrúar var 6.641 milljón króna. Alls hefur 58.700 milljónum verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda á tímabilinu, skuldabréf sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands var greitt upp að fullu en eftirstöðvar þess námu 28,5 ma.kr. Þá voru um 30 ma.kr. ráðstafað til uppkaupa á skuldabréfaflokknum RIKH 18 sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar fjármálastofnana. Samandregið frá því að framsal stöðugleikaeignanna átti sér stað í upphafi árs 2016 og til og með 25. ágúst 2017 hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn ásamt greiðslum inn á reikninga dótturfélaga numið samtals ríflega kr. 140 ma.kr. Þar af var 17 ma.kr. ráðstafað til ríkissjóðs til að mæta töpuðum bankaskatti og um 120 ma.kr. hefur verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda,“ segir í greinargerðinni.
Samkeppniseftirlitið hindraði sölu á Lyfju
Meðal óskráðra hlutabréfaeigna Lindarhvols er Lyfja hf. sem rekur lyfjaverslanir um allt land. Félagið fór í opið söluferli haustið 2016 og var tilboði Haga hf. tekið þar sem það reyndist hæst, upp á 6,7 milljarða króna.
Kaupin voru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, en í júlí mánuði var ljóst að ekki yrði af kaupum Haga á Lyfju þar sem Samkeppniseftirlitið hafnaði samruna félaganna. Lindarhvoll heldur því enn á þessari eign fyrir hönd ríkisins.
Á næstu vikum mun stjórn Lindarhvols ehf. meta næstu skref í málinu, segir í greinargerðinni. „Að mati Lindarhvols ehf. er ekki talið heppilegt að setja önnur óskráð hlutabréf í umsýslu þess í söluferli að svo stöddu þar sem slík sala muni ekki verða til þess að hámarka verðmæti viðkomandi hlutabréfa m.a. vegna eðli eignanna og annarra þátta sem snúa sérstaklega að einstökum eignum í þessum eignaflokki,“ segir í greinargerðinni.