Ákveðið var á miðstjórnarfundi Sjálfstæðisflokksins í gærkvöldi að fresta landsfundi flokksins fram á næsta ár, en til stóð að hann færi fram dagana 4. til 5. nóvember. Í ljósi breyttrar stöðu í stjórnmálunum, eftir að slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, þá ákvaðu flokksmenn að skynsamlegt væri að seinka fundinum.
Eins og kunnugt er verða þingkosningar 28. október næstkomandi og vinna stjórnmálaflokkarnir nú að því að undirbúa þær. Útlit er fyrir afar spennandi kosningar.
Samkvæmt niðurstöðum könnunar Zenter rannsókna mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 26,4% fylgi samanborið við 29,0% í Alþingiskosningunum 2016.
Fylgi Vinstri grænna hækkar frá kosningunum 2016 og mælist nú með 22,8% borið saman við 15,9% árið 2016. „Miðað við 95% öryggisbil er hins vegar ekki marktækur munur á milli flokkanna tveggja,“ segir í tilkynningu sem Zenter sendi frá sér þegar könnunin var gerð.
Píratar mælast með 12,5% fylgi borið saman við 14,5% atkvæða í síðustu kosningum. Framsóknarflokkurinn mælist með 10,5% fylgi borið saman við 11,5% í kosningunum 2016.
Flokkur fólksins bætir við sig síðan 2016 og mælist nú með 9,6% borið saman við 3,5% í síðustu kosningum. Samfylkingin mælist með 9,0% samanborið við 3,5% árið 2016 og Björt framtíð mælist með 5,6% fylgi en fékk 7,2% atkvæða í kosningunum 2016. Loks mælist Viðreisn með 2,7% fylgi en flokkurinn fékk 10,5% atkvæða í síðustu kosningum.
Íslendingar 18 ára og eldri af landinu öllu voru spurðir í könnuninni og tóku 956 einstaklingar þátt.