Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur ekki látið mikið fyrir sér fara síðan hann lét af embætti 20. janúar síðastliðinn. Hann kom hins vegar fram í pallborði á vegum Bill og Melindu Gates-samtakanna í gær þar sem hann gagnrýndi stjórnarhætti Donalds Trump, núverandi forseta.
Eftir að hafa flutt erindi svaraði hann spurningum. Þar var Obama spurður út í ávarp Trumps fyrir allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á þriðjudag. Obama sagði Bandaríkin ekki geta leyst stærstu vandamál heimsins – eins og til dæmis loftslagsmál eða flóttamannavandann – á eigin spýtur.
Obama nefndi Trump aldrei með nafni en sagði skýrt að hann væri óssamála þeirri stefnu sem Trump hefur sett. Frá þessu er meðal annars greint á vef Reuters.
„Þetta er pirrandi,“ sagði Obama um að Trump og repúblikanar hyggjast afnema heilbrigðislöggjöfina sem samþykkt var í tíð Obama í Hvíta húsinu. „Þetta er sérstaklega pirrandi að þurfa að bregðast við á nokkurra mánaða fresti og koma í veg fyrir að stjórnmálamennirnir okkar skaði bandaríska borgara raunverulega.“
Forsetinn fyrrverandi sagðist telja mikilvægt að fólk hefði jákvæðni að vopni. „Viðbragðið verður að snúast um höfnun á bölsýni og svartsýni, og þrýsta smitandi og miskunarlausri bjartsýni að fólki,“ sagði hann. Bjartsýnin má þó ekki vera blind að mati Obama. „Hún má ekki vera þannig að litið sé fram hjá stærð og vigt vandamálanna. Bjartsýnistrú sem barist hefur verið fyrir er innbyggð í sögur af raunverulegum framförum í mannkynssögunni.“
Óvæntur Obama
Barack Obama vakti athygli nýverið þegar hann lét óvænt sjá sig í kennslustund í menntaskóla í Washington DC. Nemendunum var eðlilega brugðið, enda höfðu þau ekki fengið neinar fregnir af því að Obama væri á ferðinni í skólanum þeirra. Myndband frá heimsókn forsetans fyrrverandi má sjá hér að neðan.