Vinstri græn vildu ekki starfa með Viðreisn og Bjartri framtíð í starfsstjórn eftir fall ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar fyrir helgi. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Einnig voru hugmyndir um fimm flokka ríkisstjórnarsamstarf viðraðar of seint svo ekki kom annað til greina en að boða til kosninga.
Leiðrétt: Í fyrri frétt var sagt Katrín Jakobsdóttir hefði slegið viðræður um fimm flokka ríkisstjórn út af borðinu. Engar formlegar viðræður höfðu átt sér stað áður en tekin var ákvörðun um að rjúfa þing.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir í samtali við Kjarnann að ekki hafi komið til greina að mynda fimm flokka ríkisstjórn vegna þess að flokkur hennar vildi ekki starfa með Viðreisn og Bjartri framtíð.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var vilji hjá hinum flokkunum fjórum, Viðreisn, Pírötum, Samfylkingunni og Bjartri framtíð, að skoða þann möguleika að fara í stjórnarsamstarf með Vinstri grænum. Þær viðræður hafi aftur á móti stöðvað hjá flokki Katrínar. Hún segir það ekki vera rétt.
Katrín segir að þeim hafi ekki hugnast að starfa með þessum tveimur flokkum eftir setu þeirra í nýfallinni stjórn. Störf Viðreisnar og Bjartar framtíðar í ríkisstjórninni hafi leitt það í ljós að stefnur flokkanna og Vinstri grænna fari ekki saman. Ekki sé nóg að vera með fögur orð og loforð, það þurfi að fylgja þeim eftir.
Hún segist opin fyrir minnihlutastjórn í framtíðinni en í fyrsta lagi vilji hún vera í forsvari fyrir félagshyggjustjórn ef til þess kemur.