Fjármálaeftirlitið (FME) tilkynnti Taconic Capital Advisors LP og tengdum aðilum í dag að þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. sem nemur allt að 33%, þ.m.t. dótturfélögunum Stefni hf., Valitor hf., Verði tryggingum hf. og Verði líftryggingum hf.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá FME.
Ákvörðunin tekur gildi þegar hin „sérstöku skilyrði Fjármálaeftirlitsins frá 8. janúar 2010, sem gilda um eignarhald Kaupþings ehf. í Arion banka hf. í gegnum Kaupskil ehf., falla brott, í síðasta lagi þegar hlutabréf í bankanum verða tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði,“ að því er segir í tilkynningunni frá FME.
Einnig hefur Fjármálaeftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að Taconic Capital Advisors LP og tengdir aðilar og Kaupþing ehf. teljist í samstarfi í skilningi c-liðar 25. tölul. 1. mgr. 1 gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sbr. VI. kafla sömu laga. Samanlagður virkur eignarhlutur þeirra í bankanum getur því einungis numið allt að þriðjungi, segir í tilkynningunni.
Sjóðfélagar í Taconic Sidecar Master Fund SPC, Taconic Opportunity Master Fund LP og Taconic Master Fund 1.5 LP eru að stærstum hluta norður-amerískir og evrópskir stofnanafjárfestar, lífeyrissjóðir, styrktar- og fjölskyldusjóðir.
Í undirbúningi hefur verið að skrá Arion banka á markað, en líklegt er að það tefjist í það minnsta fram á næsta ár, vegna stjórnarslitanna í stjórnmálunum. Forsvarsmaenn Kaupþings hafa að undanförnu fundað með fulltrúum stjórnvalda og Seðlabankans um að ríkið falli frá forkaupsrétti á bankanum, ef verðmiðinn fer niður fyrir 0,8 sinnum eigið fé. Ríkið á 13 prósent hlut í bankanum en miðað við 0,8 sinnum eigið fé, er bankinn 172 milljarða króna virði.
Helstu atriðin, í tilkynningu FME, fara hér á eftir.
Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort sá sem hyggst eignast virkan eignarhlut sé hæfur til að fara með eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Matið grundvallast á viðmiðum, sem fram koma í 2. mgr. 42. gr. laga um fjármálafyrirtæki, auk þess sem stofnunin hefur hliðsjón af viðmiðunarreglum evrópsku eftirlitstofnananna á fjármálamarkaði frá 2008 og 2016. [1]
Við mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi Taconic Capital Advisors LLP og tengdra aðila lagði stofnunin mat á hæfi lúxemborgska fjárfestingafélagsins TCA New Sidecar III S.à r.l. til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. með beinni hlutdeild. TCA New Sidecar III S.à r.l. fer nú með um 9,99% hlut í bankanum.
Þá lagði Fjármálaeftirlitið mat á hæfi lúxemborgsku fjárfestingafélaganna TCA Opportunity Investments S.à r.l., TCA Event Investments S.à r.l. og TCA Sidecar II S.à r.l. til að fara með virkan eignarhlut með óbeinni hlutdeild. Félögin fara nú samanlagt með um 40,67% hlut í Kaupþingi ehf., eða sem nemur um 23,35% óbeinum hlut í Arion banka hf.[2]
Jafnframt lagði Fjármálaeftirlitið mat á hæfi eftirfarandi aðila til að fara með virkan eignarhlut í bankanum með óbeinni hlutdeild:
- TCA Opportunity Holding S.à r.l. með skráð aðsetur í Lúxemborg og er eignarhaldsfélag TCA Opportunity Investments S.à r.l.
- TCA Event Holding S.à r.l. með skráð aðsetur í Lúxemborg og er eignarhaldsfélag TCA Event Investments S.à r.l.
- Taconic Sidecar Master Fund SPC, aðskilin eignasöfn II og III, sem er sjóður með skráð aðsetur á Caymaneyjum og fjármagnar TCA Sidecar II S.à r.l. og TCA New Sidecar III S.à r.l.
- Taconic Sidecar GP LLC sem er ábyrgðaraðili Taconic Sidecar Master Fund SPC og með skráð aðsetur í Bandaríkjunum.
- Taconic Opportunity Master Fund LP sem er sjóður með skráð aðsetur á Caymaneyjum og fjármagnar TCA Opportunity Investments S.à r.l. í gegnum TCA Opportunity Holding S.à r.l.
- Taconic Associates LLC sem er ábyrgðaraðili Taconic Opportunity Master Fund LP og með skráð aðsetur í Bandaríkjunum.
- Taconic Master Fund 1.5 LP sem er sjóður með skráð aðsetur á Caymaneyjum og fjármagnar TCA Event Investments S.à r.l. í gegnum TCA Event Holding S.à r.l.
- Taconic Capital Partners LLC sem er ábyrgðaraðili Taconic Master Fund 1.5 LP og með skráð aðsetur í Bandaríkjunum.
- Taconic Capital Advisors LP sem stýrir fjárfestingum og eignum Taconic Sidecar Master Fund SPC, Taconic Opportunity Master Fund LP og Taconic Master Fund 1.5 LP., sem og TCA New Sidecar III S.à r.l., TCA Opportunity Investments S.à r.l., TCA Event Investments S.à r.l. og TCA Sidecar II S.à r.l. Félagið stundar sérhæfða sjóðastýringu í Bandaríkjunum samkvæmt leyfi og undir eftirliti bandaríska verðbréfaeftirlitsins, US Securities and Exchange Commission. Félagið stundar einnig leyfisskylda starfsemi í Bretlandi og Hong Kong.
- Taconic Capital Performance Partners LLC sem er ábyrgðaraðili Taconic Capital Advisors LP og með skráð aðsetur í Bandaríkjunum.
- Frank Brosens sem fer með yfirráð í Taconic Capital Performance Partners LLC.
Mat Fjármálaeftirlitsins grundvallaðist á tilkynningu Taconic Capital Advisors LP og tengdra aðila til að fara með allt að 33% virkan eignarhlut í Arion banka hf., fylgiskjölum hennar og öðrum upplýsingum sem stofnunin aflaði frá aðilunum. Matið byggði einnig á upplýsingum sem stofnunin aflaði frá erlendum fjármálaeftirlitum.
Við matið var sérstaklega horft til þess að Arion banki hf. telst kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu fjármálastöðugleikaráðs. Með hliðsjón af því kannaði Fjármálaeftirlitið sérstaklega getu Taconic Capital Advisors LP og tengdra aðila til að styðja fjárhagslega við bankann við sérstakar aðstæður.