„Skattfrjálsir sparnaðarreikningar slá nokkrar flugur í einu höggi. Þeir hvetja til sparnaðar og auka framboð fjármögnunar í hagkerfinu, án þess þó að beina sparnaði í einn farveg frekar en annan.“
Þetta segir í grein Hafsteins Haukssonar, hagfræðings hjá GAMMA, í nýjustu útgáfu Vísbendingar. Í greininni veltir hann fyrir sér leið sem farin er í Bretlandi, þegar kemur að skattaívilnun til hlutabréfakaupa. Þá fjallar hann einnig um sparnaðaruppbyggingu fólks, og hvernig hún eigi sér stað á Íslandi. Í hverju eignir fólks liggja og hvernig breytingar verða á þeirri stöðu með tímanum.
Hafsteinn fjallar sérstaklega um skattfrjálsa sparnaðarreikninga. „Þeir skapa hvata fyrir minni fjárfesta til þess að kynna sér mismunandi ávöxtunarmöguleika og leggja mat á kosti þess að fjárfesta í verðbréfum, hvort sem er á skipulegum verðbréfamarkaði eða með fjárfestingum í verðbréfasjóðum, og stuðla að upplýstri umræðu um fjármál einstaklinga. Að lokum jafna þeir stöðu efnameiri fjárfesta og efnaminni fjárfesta með því að einfalda minni fjárfestum að ávaxta sparifé sitt og ívilna sparifjáreigendum hlutfallslega meira eftir því sem þeir hafa minna til að leggja fyrir,“ segir í greininni.