Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra, segir að það sjáist þess glögg merki nú, að Sjálfstæðisflokkurinn flýji ábyrgð þegar á reyni.
Á Facebook síðu sinni deilir hann frétt frá mbl.is, þar sem Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það hafi ekki staðið til að samþykkja óbreytt fjárlagafrumvarp.
Benedikt segir að Páll sé með þessu í reynd, að koma í bakið á formanni sínum, Bjarna Benediktssyni. „Sjálfstæðisflokkurinn sem kennir sig við ábyrgð og stöðugleika notar fyrsta tækifæri til þess að flýja frá ábyrgð.
Í raun er Páll hér að koma í bakið á formanni sínum og vissulega urðum við vör við að ekki var nóg að ganga frá samningum við Bjarna heldur er Sjálfstæðisflokkurinn klofinn í mörgum málum og semja þurfti sérstaklega við ákveðinn hóp.
Bjarna verður tíðrætt um þörfina á tveggja flokka ríkisstjórn, en eina tveggja flokka stjórnin sem Sjálfstæðisflokkurinn getur tekið þátt í er ef hann er einn í ríkisstjórn,“ segir Benedikt.
Eins og kunnugt er verður kosið 28. október. Samkvæmt kosningaspá.is, sem hefur verið í samstarfi við Kjarnann í undanförnum kosningum, þá eru Vinstri græn stærsti flokkur landsins um þessar mundir, með 24,5 prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn kemur þar á eftir með 24 prósent fylgi.
Píratar mælast með 12,1 prósent, Framsóknarflokkurinn 10,7 prósent, Flokkur fólksins 9,6 prósent, Samfylkingin 7,9 prósent og Viðreisn 5,5 prósent. Aðrir flokkar fá minna en 5 prósent, þar á meðal Björt framtíð, og ná ekki manni inn á þing.