Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, segist harma brotthvarf Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar úr Framsóknarflokknum. Í viðtali við Fréttablaðið í dag, segist hún hafa stutt hann frá því árið 2009, þegar hann varð formaður, og þau hafi haft náið samstarf um stór mál.
„Ég harma brotthvarf Sigmundar Davíðs úr Framsóknarflokknum. Ég studdi hann til formennsku árið 2009 og hafa leiðir okkar legið saman í efnahagsmálunum. Við höfum unnið að úrlausn stórra efnahagsmála eins og almennu skuldaleiðréttingunni og losun fjármagnshafta. Báðar þessar efnahagsaðgerðir voru farsælar og rufu ákveðna kyrrstöðu. Alltaf þegar stjórnmálaflokkur missir öflugt fólk, þá er eftirsjá að því. Brýnt er að Framsóknarmenn snúi bökum saman og hefji kosningabaráttuna til að ná árangri,“ segir Lilja.
Sigmundur Davíð segir að framboð hans muni bjóða fram í öllum kjördæmum. Hann segist jafnframt ekki útiloka samstarf við Björn Inga Hrafnasson, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og einn forsvarsmanna fjölmiðlafyrirtækisins Pressunnar, sem Sigurður G. Guðjónsson hrl. bjargaði frá gjaldþroti, í það minnsta tímabundið, á dögunum. Fyrirtækið var með mörg hundruð milljóna skuldahala, meðal annars við ríkissjóð, stéttarfélög og lífeyrissjóði.
Sigmundur Davíð greindi frá því í gær, að hann ætlaði sér að fara úr Framsóknarflokknum og stofna nýtt framboð fyrir alþingiskosningarnar 28. október. Í ítarlegum pistli á vef sínum fer hann yfir ástæður þess að hann hefur nú ákveðið að hætta og stofna nýtt framboð. „Ég geri mér grein fyrir að einhverjir kunna að vera þeirrar skoðunar að ég hefði ekki átt að tjá mig eins opinskátt og raun ber vitni um innanmein Framsóknarflokksins. Vonandi virða þeir hinir sömu það þó við mig að ég varð að skýra hvers vegna ég tók þá ákvörðun sem ég hef nú tekið og líti jafnframt til þess að ég hef látið vera að nefna flest það sem viðkvæmast getur talist í atburðarás síðustu missera í flokknum,“ segir Sigmundur Davíð.