Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir Sjálfstæðisflokkinn ekki hafa viljað samþykkja tillögu um að nýtt breytingarákvæði við stjórnarskrána. Hún segir alla aðra flokka hafa verið til í það.
„Ég lagði það til áðan á fundi formanna flokkanna að við myndum sameinast um nýtt breytingaákvæði við stjórnarskrá í anda þess sem var í gildi 2013-2017, þ.e. að ásamt því að hægt væri að samþykkja stjórnarskrárbreytingar með gömlu aðferðinni væri hægt að afgreiða slíkar breytingar með auknum meirihluta á Alþingi og vísa því svo til þjóðarinnar og afgreiða þær svo fremi sem 25% kosningabærra manna myndu samþykkja þær.“
„Þessi tillaga var tilraun til að miðla málum og skapa aukna samstöðu um stjórnarskrárbreytingar og tóku allir flokkar, nema Sjálfstæðisflokkurinn, jákvætt í hana. Því miður náðist ekki samkomulag allra um málið og því metum við Vinstri-græn það svo að best sé að ljúka þinginu þannig að börnum í hópi hælisleitenda verði komið í skjól, stigin verði fyrstu skref í átt að því að afnema uppreist æru úr hegningarlögum og Alþingi sæki svo nýtt umboð til þjóðarinnar,“ segir Katrín á Facebook síðu sinni.
Samfylkingin og Píratar voru ekki hluti af samkomulagi um málefni sem klára þarf fyrir þinglok, og er ástæðan meðan annars ágreiningur um hvernig eigi að haga málum er snúa að stjórnarskránni.
Á Facebook síðu sinni segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, að því miður hafi ekki verið hljómgrunnur fyrir þeim sjónarmiðum sem hann og Píratar töluðu fyrir. „Þjóðin fengi að ráða för í stjórnarskrármálinu. Að Alþingi myndi samþykkja nýtt breytingarákvæði sem gerði þjóðinni kleift að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili. Þar höfðum við og Píratar því miður ekki erindi sem erfiði en við berjumst áfram!“ segir Logi á Facebook síðu sinni.
Eins og greint var frá fyrr í dag náðu fimm flokkar á Alþingi samkomulagi um hvernig skuli ljúka þingstörfum. Það eru Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Viðreisn, Björt framtíð og Vinstri græn.
Málin sem verða afgreidd fyrir þinglok snúa meðal annars að brottfalli ákvæðis um uppreist æru, og frumvarp um bráðabirgðaákvæði í kosningalögum, og frumvarp um breytingar á útlendingalögum, sem flutt verður af formönnum flokka sem það styðja. Vonast er til þess að þinglok verði á morgun, en það fer þó eftir því hverstu hratt málin verða afgreidd á Alþingi, en gengið verður til kosninga 28. október.