Falsfréttaritarinn Paul Horner fannst látinn á heimili sínu nærri Phoenix, Arizona í Bandaríkjunum í gær. Hann varð þekktur fyrir að skrifa falskar fréttir í aðdraganda forsetakosninganna vestanhafs í fyrra.
Lögreglufulltrúi í Arizona sagði í samtali við AP-fréttastofuna að vísbendingar á vettvangi hafi bent til þess að Horner hafi óvart neytt of stórs skammts af eiturlyfjum. Enn á þó eftir að staðfesta dánarorsökina en ekki er talið að dauði hans hafi borið að með saknæmum hætti.
Horner skrifaði margar falskar fréttir sem hann miðaði að stuðningsmönnum Donalds Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikana í kosningunum. Fréttirnar hans fengu oftar en ekki gríðarlega mikla dreifinu á Facebook og Twitter.
Í samtali við fréttablogg bandaríska dagblaðsins The Washington Post í fyrra, sagðist Horner halda að hann ætti einhvern þátt í því að Trump hafi verið kjörinn. „Fréttunum mínum var alltaf dreift af stuðningsmönnum Trumps. Ég held að Trump sé í Hvíta húsinu út af mér,“ sagði hann.
„Stuðningsmennirnir hans sannreyna ekkert – þeir deila bara öllu og trúa öllu. Kosningastjórinn hans deildi frétt eftir mig um að mótmælandi hafi fengið greitt 3.500 dollara og sagði það staðreynd. Ég meina, ég skáldaði það. Ég keypti falska auglýsingu á Craigslist.“
Í samtalinu sagði Horner að hann hafi birt bullfréttirnar til þess að láta stuðningsmenn Trumps líta illa út. „Ég hélt að þeir myndu sannreyna fréttirnar og að það myndi láta þá líta ver út. Ég meina, svona virkar það alltaf: Einhver deilir einhverju sem ég skrifa, komast svo að því að það er bull og þá líta þeir út eins og hálfvitar.“
„En stuðningsmenn Trumps – þeir héldu bara áfram að ýta undir ósönnu fréttirnar! Þeir sannreyna aldrei neitt! Og nú er hann í Hvíta húsinu. Þegar ég lít til baka þá held ég að ég hafi hjálpað kosningabaráttunni hans frekar en að skaða hana. Mér líður illa með það,“ sagði Horner.