Eignarhaldsfélagið Lindarhvoll, sem ríkið á og heldur utan um stöðugleikaeignir sem voru framseldar til ríkisins í ársbyrjun 2016, keypti þjónustu af lögmannsstofu Steinars Þórs Guð- geirssonar hrl. og ráðgjafa Lindarhvols, fyrir samtals um 39 milljónir án virðisaukaskatts á síðustu átta mánuðum ársins 2016. Það gerir tæplega 5 milljónir króna, án VSK, á mánuði, sem runnu til Steinars Þórs vegna starfa hans fyrir Lindarhvol á fyrrnefndu tímabili.
Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Lindarhvols, sem greint er frá í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag. Ársreikningnum var skilað 12. september síðastliðinn, en hann hefur ekki verið birtur á vef félagsins ennþá.
Í Markaðnum segir, að stjórn félagsins hafi gert samning við lögmannsstofuna Íslög, sem er í eigu Steinars Þórs, þann 28. apríl 2016 um að annast „þjónustu vegna umsýslu, fullnustu og sölu, á þeim stöðugleikaeignum sem voru umsjá félagsins“.
Í stjórn félagsins sitja Þórhallur Arason, formaður stjórnar og starfsmaður í fjármálaráðuneytinu, Ása Ólafsdóttir, meðstjórnandi, og Haukur C. Benediksson, meðstjórnandi. Kjarninn sendi fyrirspurn til Þórhalls í mars, þar sem óskað var eftir upplýsingum um starfsemi félagsins á síðasta ári, og niðurbrot á kostnaði og verkefnum. Þórhallur svaraði með eftirfarandi hætti, 17.mars: „Sæll Magnús og takk fyrir tölvupóstinn. Stjórn Lindarhvols ehf. er vinna að frágangi ársreiknings félagsins fyrir árið 2016 og er sú vinna að klárast á næstu dögum. Þegar þeirri vinnu er lokið verður ársreikningurinn birtur með upplýsingum um allan kostnað félagsins ásamt frekari niðurbroti. Mun senda þér reikninginn um leið og hann liggur fyrir. Kær kveðja, f.h. Lindarhvols ehf. Þórhallur Arason, stjórnarformaður.“ Ársreikningurinn var aldrei sendur, og ítrekuðum fyrirspurnum var ekki svarað.
Samkvæmt ársreikningnum þá nam rekstrarkostnaður Lindarhvols 56,5 milljónum í fyrra.
Óhætt er að segja að skattgreiðendur eigi mikla hagsmuni í starfsemi Lindarhvols og að þar sé vandað til verka við hámarka virði eigna.
Í fang ríkisins, eftir uppgjör slitabúa föllnu bankanna, komu eignir upp á 384,3 milljarða króna, mest munaði þar um 95 prósent eignarhlut í Íslandsbanka og veðskuldabréf og afkomuskiptasamning vegna Arion banka, upp á samtals ríflega 105 milljarða króna.
Aðrar eignir nema, þar á meðal hlutafjáreignir, lán og aðrar eignir, nema tæplega 100 milljörðum króna. Allt laust fé sem borist hefur félaginu rennur inn á reikning félagsins hjá Seðlabanka Íslands, samkvæmt greinargerð sem skilað var til Alþingis á dögunum.
Í greinargerðinni segir að samtals hafi um 140 milljarðar króna runnið inn á reikninginn í Seðlabankanum frá því árið 2016. „Frá því í febrúar 2017 og fram til ágústloka hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn numið 56.448 milljónum króna. Staðan á reikningnum þann 3. febrúar var 6.641 milljón króna. Alls hefur 58.700 milljónum verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda á tímabilinu, skuldabréf sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands var greitt upp að fullu en eftirstöðvar þess námu 28,5 ma.kr. Þá voru um 30 ma.kr. ráðstafað til uppkaupa á skuldabréfaflokknum RIKH 18 sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar fjármálastofnana. Samandregið frá því að framsal stöðugleikaeignanna átti sér stað í upphafi árs 2016 og til og með 25. ágúst 2017 hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn ásamt greiðslum inn á reikninga dótturfélaga numið samtals ríflega kr. 140 ma.kr. Þar af var 17 ma.kr. ráðstafað til ríkissjóðs til að mæta töpuðum bankaskatti og um 120 ma.kr. hefur verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda,“ segir í greinargerðinni.