Steve Pappas, einn yfirmanna Costco í Evrópu (SVP), sagði á fundi Íslandsbanka að það hefðu verið uppi efasemdaraddir innan fyrirtækisins um innreið Costco til Íslands. „Við erum yfirleitt að hugsa um borgir með eina milljón eða fleiri fyrir okkar verslanir,“ sagði Pappas þegar hann var spurður út í það á hverju efasemdirnar hefðu byggt.
Íbúasvæði höfuðborgarsvæðisins er einungi ríflega fimmtungur af þessari stærð sem Pappas nefndi.
Pappas segir móttökurnar sem fyrirtækið hefur fengið hafa einstaklega ánægjulegar. Eftir að hafa greint markaðinn á Íslandi, þá hafi verið fyritækið metið sem svo að það væru tækifæri í því fólgin að bjóða upp á góða verslunarupplifun og leggja mikið upp úr því að áskrifendur Costco korta fái mikið fyrir sinn snúð, meðal annars með góðu verði og fjölbreyttu vöruúrvali.
Óhætt er að segja að stærð Costco sé í engu samræmi við íslenska markaðinn, sé horft til markaðsvirðist fyrirtækisins. Virði fyrirtækisins nemur um 72 milljörðum Bandaríkjadala, sem er um sjöföld upphæð markaðsvirðis íslenska hlutabréfamarkaðarins.
Til samanburðar nemur markaðsvirði Haga, stærsta íslenska smálsölufyrirtækisins, nú 39,3 milljörðum króna eða sem nemur 0,5 prósent af markaðsvirði Costco.
Fyrirtækið rekur 740 verslunarrými um allan heim, og er með ríflega 130 þúsund starfsmenn í vinnu.
Í samtali Pappas við Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóra hjá Íslandsbanka, kom fram að Costco myndi leggja upp með að viðhalda og bæta þjónustu við þá korthafa til framtíðar litið, en það hefur verið aðalsmerki fyrirtækisins frá því það var stofnað. Tæplega 100 þúsund aðildarkort hafa verið seld hér á landi, til einstaklinga og fyrirtækja.
Fyrirtækið hefur starfað frá árinu 1983 og var stofnað í útjaðri Seattle, í sveitarfélaginu Issaquah, þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru enn í dag.
Óhætt er að segja að mikil framþróun sé nú að eiga sér stað í smásölu, og hafa nýjar lausnir, meðal annars í netverslun, ekki síst komið frá keppinauti Costco, tækni- og smásölurisanum Amazon. Höfuðstöðvar þess fyrirtækis eru í Seattle, en það olli miklum titringi á markaðnum á dögunum þegar Amazon keypti Whole Foods.
Aðspurður um miklar tækniframfarir í verslun sagði Pappas að allir væru að reyna finna hagkvæmar lausnir, þegar kæmi að netverslun og heimsendingum. Þetta væri erfitt og krefjandi viðfangsefni, en samt væri það ennþá þannig, að staðsetning verslana skipti máli og að fólk væri ennþá að sækja inn í verslanir. „Fólk vill ennþá heimsækja verslanir,“ sagði Pappas, en minntist sérstaklega á að þetta væri krefjandi þegar kæmi að ferskvörum.