Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og nú stofnandi nýs stjórnmálaafls, Miðflokksins, sagði í viðtali við Kastljós RÚV í kvöld, að hann ætlaði sér fyrst og fremst að einblína á lausnir á stórum úrslausnarefnum sem Ísland stæði frammi fyrir. „Að sjálfsögðu viljum við komast í ríkisstjórn, en það verður aðeins gert á grundvelli málefnanna,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann sagðist tilbúinn að fylgja málum eftir í stjórnarandstöðu líka, það yrði ekkert vandamál.
Í upphafi þáttar ræddu Einar Þorsteinsson, fréttamaður, og Sigmundur Davíð um Wintris-málið svonefnda, og úrsögn Sigmundar Davíðs úr Framsóknarflokknum. Sagðist Sigmundur Davíð meðal annars vilja leiðrétta innganginn í viðtalinu, og sagðist vera búinn að svara því sem að honum og konu hans snéri. Meðal annars sagðist hann aldrei hafa átt eignir á aflandseyjum, og að kröfur sem lýst hafa verið í búið hafi verið hefðbundnar kröfur þeirra sem lýstu kröfum vegna innlána fyrir hrunið. „Ekki eftir eftir hrunið, eins og hjá vogunarsjóðunum,“ sagði Sigmundur Davíð.
Hann rökræddi síðan við Einar um tilefni þess að hann kom í þáttinn, þar sem gefið hefði verið í skyn þegar talað hefði verið við hann, að hann ætti að koma í sjónvarpið til að ræða nýtt framboð hans og framtíðarsýnina. „Þetta er þá væntanlega það sem það kallast hjá Ríkisútvarpinu, að vera „sjanghæ-aður“ í viðtal,“ sagði Sigmundur Davíð.
Í þættinum var ekki fjallað um hvaða mál það væru sérstaklega, sem framboð Sigmundar Davíðs ætlaði sér að leggja mesta áherslu á, en hann lagði áherslu á að landið stæði frammi fyrir „miklum tækifærum“ og hann myndi beita sér fyrir því að koma fram með lausnir og fylgja þeim eftir af festu. Hann sagðist ætla að nýta tímann fram að kosningum í að koma fram með framtíðarsýnina og leggja hana í dóm kjósenda.