Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur einkennst af töluverðum sveiflum að undanförnu, ekki síst eftir að ríkisstjórnin féll og ákveðið var að boða til kosninga. Vísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins hefur lækkað um 3,4 prósent það sem af er ári, samkvæmt vef Keldunnar.
Staðan á hlutabréfamarkaði er til umfjöllunar í nýjustu útgáfu Vísbendingar, þar sem Eggert Þór Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá Virðingu, fjallar um stöðuna. „Innlendur hlutabréfamarkaður hefur átt undir högg að sækja á síðustu vikum og mánuðum eftir góða spretti framan af ári. Síðastliðinn ágústmánuður var líklega sá versti sem sést hefur eftir endurreisn hlutabréfamarkaðarins en þá lækkuðu helstu vísitölur markaðarins um 6%. Óstöðugleiki í gengismálum, breytingar í samkeppnisumhverfi fyrirtækja og nú síðast pólitísk óvissa hafa átt sinn þátt í því að markaðsverðmæti margra skráðra félaga hefur lækkað skarpt á síðustu vikum. Einnig má halda því fram að ákveðið flæðisvandamál hafi myndast eftir afnám gjaldeyrishafta. Meiri fjármunir hafa streymt út af markaðnum en hafa komið inn. Lífeyrissjóðir, sem hafa verið afar áberandi kaupendur að innlendum hlutabréfum á síðustu árum, hafa haldið að sér höndum og aðrir innlendir fjárfestar horfa í vaxandi mæli út fyrir landssteinana. Á sama tíma eru erlendir sjóðir orðnir meira áberandi en nokkurn tíma áður,“ segir í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi af Vísbendingu hér.