Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar og stærsti eigandi fyrirtækisins ásamt Ágústi bróður sínum, sem gegnir stöðu forstjóra, mun stíga niður úr hlutverki sínu sem stjórnarformaður fyrir skráningu félagsins á markað.
Gert er ráð fyrir Simon Burke, fyrrverandi forstjóri Hamleys, verði stjórnarformaður, að því er fram kemur í umfjöllun Reuters, en hann á nú sæti í stjórn félagsins líkt og bræðurnir báðir. Er þetta meðal annars gert til að koma til móts við kvaðir eftirlitsaðila fyrir fyrirtæki í skráningarferli.
Skráning Bakkavarar á markað í Bretlandi er fyrirhuguð á næstunni og er verðmiðinn á félaginu sagður um tveir milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 210 milljörðum króna.
Bræðurnir Ágúst og Lýður eru eigendur félagsins ásamt fjárfestingasjóðnum Baupost Group, en þeir stofnuðu félagið árið 1986.
Á fyrrihluta þessa árs hófst formlega undirbúningur að skráningu félagsins og var HSBC bankinn ráðinn til þess verkefnis ásamt Morgan Stanley. Barclays, Rabobank og Peel Hunt, ráðgjafafyrirtæki með höfuðstöðvar í London.
Bakkavör er með sterkan efnahag, en heildartekjur fyrirtækisins í fyrra námu tæplega 1,8 milljörðum punda í fyrra, eða sem nemur um 252 milljörðum króna.
Eins og greint var ítarlega frá, í fréttaskýringu Kjarnans í júní síðastliðnum, þá hefur saga Bakkavarar verið mikil rússíbanareið á undanförnum árum, þar sem togast hafa á ólíkir hagsmunir hluthafa og kröfuhafa, sem ekki síst mátti rekja til hrunsins á Íslandi haustið 2008. Ágúst og Lýður eru nú í hópi ríkustu manna Bretlands, samkvæmt úttekt The Sunday Times.
Rekstur félagsins hefur hins vegar gengið vel, en meðal stórra viðskiptavina fyrirtækisins, með tilbúna rétti fyrirtækisins í sölu, eru Marks & Spencer og Sainsbury. Í fyrra nam hagnaður félagsins, fyrir skatt, um 63 milljónum punda, eða sem nemur tæplega níu milljörðum króna.
Í stjórn félagsins sitja auk Ágústar, Lýðs og Burke, þeir Robert Q. Berlin, sem er forstjóri Baupost Group, Todd Krosnow og Denis Hennequin.