N1 ehf., sem rekur eldsneytisstöðvar út um allt land og er skráð í Kauphöll Íslands, hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Festi, móðurfélagi Krónunnar, Elko, Kjarval og Kr auk þess sem félagið rekur Bakkann vöruhótel. Festi á auk þess 18 fasteignir sem eru annað hvort í leigu til verslana félagsins eða til þriðja aðila og er heildarstærð fasteignanna um 71.500 fermetrar. Heildarvelta Festi var rúmir 39 milljarðar króna á rekstrarárinu sem lauk 28. febrúar 2017.
Endanlegt kaupverð mun ráðast af skuldastöðu Festis við lok yfirstandandi fjárhagsárs 28. febrúar 2018. Áætluð samlegðaráhrif af sameiningu N1 og Festi eru á bilinu 500 til 600 milljónum króna. Viðskiptin eru meðal annars háð skilyrðum um að hluthafafundir beggja aðila samþykki kaupin og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi viðskiptin eftir er gert ráð fyrir að þeim ljúki á 2. ársfjórðungi 2018. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Tilkynnt var um það í júní að N1 hefði náð samkomulagi um kaup á öllu útgefnu hlutafé í Festi, sem sérhæfir sig í rekstri verslunarfyrirtækja. Alls rekur Festi 28 verslanir undir merkjum Krónunnar, ELKO, Nóatúns og Kjarvals. en félagið á auk þess vöruhúsið Bakkann og 17 fasteignir. Heildarvelta Festis var 39 milljarðar króna á síðasta ári og heildarvirði félagsins er metið á 37,9 milljarða króna í viðskiptunum. Kaupverðið átti að greiðast með hlutafé í N1 og yfirtöku skulda. Virði þeirra hlutabréfa sem greidd verða eru 8.750 milljónir króna auk þess sem betri afkoma Festis getur leitt af sér viðbótargreiðslu.
Í byrjun september var greint frá því að N1 færi fram á að greiða lægra verð fyrir allt hlutafé Festar. Þar skipti mestu máli að afkoma Krónunnar á undanförnum mánuðum hefði verið nokkuð undir áætlunum. Þar skipti innkoma Costco á íslenskan markað miklu máli.