Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum sem oft eru nefndir stýrivextir, verða því 4,25 prósent.
Í frétt á vef Seðlabankans um ákvörðun nefndarinnar segir: „Horfur eru á minni hagvexti í ár en í fyrra, m.a. vegna þess að hægt hefur á vexti ferðaþjónustu. Hagvöxtur verður þó áfram töluvert mikill. Vísbendingar eru um að farið sé að draga úr spennu í þjóðarbúskapnum.
Verðbólga hefur hjaðnað nokkuð sl. tvo mánuði og í september mældist hún 1,4%. Mælikvarðar á undirliggjandi verðbólgu eru enn lægri og hjaðnandi. Gengi krónunnar hefur lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar, eftir lækkun sl. sumar, og er 4,5% hærra en á sama tíma í fyrra. Mælikvarðar á verðbólguvæntingar eru í nokkuð góðu samræmi við verðbólgumarkmiðið. Gengissveiflur undanfarinna mánaða hafa haft tiltölulega lítil áhrif á verðbólgu og skammvinn áhrif á verðbólguvæntingar.
Spenna í þjóðarbúskapnum kallar á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga auk minnkandi spennu benda þó til þess að raunvextir bankans nægi við núverandi aðstæður til þess að verðbólga verði að jafnaði við markmið. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.“
Verðbólga hefur verið undir 2,5 prósent markmiði Seðlabanka Íslands í um 44 mánuði samfleytt og bankinn hefur því verið að lækka meginvexti sína. Þetta hefur leitt til þess að nú bjóðast í fyrsta sinn íbúðalánavextir á Íslandi sem eru undir þrjú prósent, verðtryggt. Bestu kjörin eru sem stendur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þar sem verðtryggðir breytilegir vextir eru 2,77 prósent. Verðbólga er nú 1,4 prósent. Viðbúið er að vextir húsnæðislána geti lækkað enn meira í ljósi ákvörðunar Peningastefnunefndar um að lækka vexti í dag.