Íslensk stjórnvöld reyndu að hafa áhrif á fréttaflutning bandaríska dagblaðsins Washington Post, þegar það fjallaði um fall ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar og tengsl föður hans í því máli.
Stundin greinir frá þessu á vef sínum í dag. Þar er sagt að málið snúist um pistil eftir Janet Elise Johnson, prófessor í stjórnmálafræði og kvennafræðum við Brooklyn College í Bandaríkjunum. Pistillinn fjallar um stjórnarslitin á Íslandi og „barnaníðingshneykslið“.
Almannatengslastofan Burson Marsteller ritaði tölvupóst fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands til ritstjórnar Washington Post 27. september síðastliðinn. Í Stundinni segir að pósturinn hefjist á orðunum:
„Ég skrifa ykkur fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Við förum fram á að greinin ‘Ríkisstjórn Íslands féll vegna þess að faðir forsætisráðherra vildi að barnaníðingur yrði náðaður. Hvað er í gangi?’ verði fjarlægð vegna fjölda staðreyndavillna og afbakana.“
Eftir að blaðamaður Stundarinnar fór að grennslast fyrir um málið hjá Burson Marsteller barst svar frá upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins þar sem segir að Burson Marsteller hafi verið falið að leiðrétta rangfærslur í erlendum fjölmiðlum. Utanríkisráðherra hafi greint frá því í íslenskum fjölmiðlum að unnið væri að því að leiðrétta rangfærslur tengdar málinu. Almannatengslastofan hafi áður unnið fyrir íslensk stjórnvöld í tengslum við hin ýmsu mál.
Rangfærslurnar sem leiðrétta þurfti voru að í umfjöllun Washington Post var upphaflega talað um að faðir forsætisráðherra hefði mælt með að dæmdur barnaníðingur yrði náðaður, en ekki að honum yrði veitt uppreist æru eins og rétt er. Skömmu eftir að greinin í Washington Post birtist var þetta lagfært á vefnum.