Það er áhyggjuefni að Ísland er enn með þrjá mjög stóra banka sem telja má að séu of stórir til að falla. Veruleg áhætta felst í því að einn eða fleiri bankar séu svo stórir innan hagkerfisins að stöðvun þeirra geti lamað efnahagsstarfsemina. Innleiðing á regluverki Evrópusambandsins hvað varðar viðbúnað og skilameðferð fjármálafyrirtækja er þó ætlað að taka á þeim vandamálum sem gætu komið upp ef banki lendir í verulegum vandræðum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við Ragnar Hafliðason, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), í nýjasta tölublaði Fjármála, vefrits eftirlitsins. Ragnar er nýlega kominn á eftirlaun en gegnir enn hlutverki sérstaks ráðgjafa forstjóra Fjármálaeftirlitsins.
Fjármálaeftirlitið var uppeldisstöð fyrir bankana
Í viðtalinu greinir Ragnar frá þeim miklu breytingum sem orðið hafa á íslensku fjármálakerfi undanfarin ár og áratugi. Hann segir m.a. að í framhaldi af eignarhlutar ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum síðla árs 2002 og í byrjun árs 2003 hafi nýir eigendur komið að bönkunum sem töldu að það væri mikil hagnaðarvon í að stækka efnahagsreikning þeirra og auka umsvif. „Stjórnendur bankanna notfærðu sér þær aðstæður sem voru á þessum tíma. Mikið framboð var á ódýru erlendu lánsfé og eflaust hefur hugsunin einnig verið sú að með stækkun utan Íslands væri verið að dreifa áhættu. [...]Vöxtur bankanna var gríðarlegur. Segja má að vöxtur í efnahag þeirra á hverju ári frá 2003 til 2008 hafi verið 40-50%. Fjármálaeftirlitið átti mjög erfitt með að fylgja eftir svo hröðum vexti því að fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins eru ákveðnar með eins til eins og hálfs árs fyrirvara. Fjármálaeftirlitið náði því ekki að halda í við þá aukningu sem varð í starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Þrátt fyrir að starfsmönnum hafi fjölgað um 50% á fimm árum frá 2003 til 2008 var það álíka og eins árs stækkun á efnahag bankanna. Ofan á þetta bættist mikil starfsmannavelta. Fjármáleftirlitið var á tímabili eins og uppeldisstöð fyrir bankana. Starfsmenn sem voru nýútskrifaðir úr háskóla hófu starfsferilinn hjá Fjármálaeftirlitinu og eftir að hafa unnið þar í 2-3 ár og tileinkað sér regluumhverfi á fjármálamarkaði urðu þeir mjög eftirsóknarverðir fyrir bankana.“
Spurning hvort eigið fé bankanna hafi verið rétt metið
Ragnar segir að þegar horft sé út um bakgluggann þá sé hægt að segja að það hafi skort á ýmislegt í regluverkinu hérlendis og að ekki hafi verið náð nægilega vel utan um mat á raunverulegri áhættu af starfsemi bankanna. Það varð til þess að gæði eiginfjár voru ófullnægjandi og spurning hvort það hafi í raun verið rétt metið miðað við fyrirliggjandi reglur.
Eftir hrun hafi allt regluverk Evrópusambandsins verið endurskoðað og öll vinna við innleiðingu á tilskipunum þaðan aukin verulega hjá Fjármálaeftirlitinu og öðrum stofnunum íslenskrar stjórnsýslu. Nú sé staðan sú í íslenska fjármálakerfinu að það sé miklu strangara eftirlit með ýmsum áhættum bankanna og meiri kröfur um gæði eigin fjár. Auk þess sé eiginfjárstaða og lausafjárstaða verulega sterkari en hún var fyrir hrun og samstarf Fjármálaeftirlitsins við Seðlabanka Íslands á vettvangi kerfisáhættunefndar og fjármálastöðugleikaráðs verið stóraukið. „Eftir sem áður er áhyggjuefni að við erum með þrjá mjög stóra banka sem telja má að séu of stórir til að falla. Í farvatninu er vinna við innleiðingu á regluverki Evrópusambandsins sem varðar viðbúnað og skilameðferð fjármálafyrirtækja sem ætlað er að taka á þeim vandamálum sem gætu komið upp ef banki lendir í verulegum fjárhagserfiðleikum.“
Áhyggjuefni hvernig eignarhaldi bankanna verður háttað
Ragnar telur að búast megi við því að eiginfjárstaða íslensku bankanna, sem er í dag töluvert yfir kröfum eftirlitsaðila, muni færast nær þeim kröfum í nánustu framtíð. Áhyggjuefni sé hvernig eignarhaldi bankanna verði háttað í framtíðinni. „Það verður sjálfsagt talsverð áskorun fyrir Fjármálaeftirlitið að meta virka eigendur og hafa viðvarandi eftirlit með þeim. Þegar reynt er að skyggnast inn í framtíðina er kannski hægt að vitna í nýlegt viðtal (júní 2017) við Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics. Hann sagði við viðmælanda sinn. Ég get lofað þér tvennu, það mun koma annað hrun og það hrun sem mun koma verður öðruvísi en hrunið 2008.“
Starfsemi banka feli í sér að þeir taka við innlánum og fjármagna sig með lántökum og lána það fé í mismunandi áhættusöm útlán sem eru yfirleitt til lengri tíma en lántökurnar og binditími innlána, skuldahliðin sé til skemmri tíma en eignahliðin. Þannig verði alltaf misvægi í rekstri þeirra sem skapar áhættu. Bankar láni langt en taki skammtímalán. Ragnar segir þetta fyrirkomulag á starfsemi banka vera eftir sem áður talið besta fyrirkomulagið fyrir hagkerfið og hagvöxt og nýtingu á framleiðsluþáttum. En í því felist áhætta. „Þá felst í því veruleg áhætta þegar einn eða fleiri bankar eru mjög stórir innan hagkerfisins að stöðvun þeirra getur lamað efnahagsstarfsemina. Og verði bankaáfall verður alltaf spurt: Hvar var Fjármálaeftirlitið? Því það verður að finna sökudólg.“