Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir í samtali við blaðamann The Guardian, sem vinnur að umfjöllun um sölu hans á eignum í Sjóði 9 í aðdraganda hrunsins með Stundinni og Reykjavík Media, að allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þeim tíma sem hann seldi. Hann hafi ekki búið yfir neinum innherjaupplýsingum um neyðarlögin á þessum tíma. Sölur úr Sjóði 9 hafi verið rannsakaðar en ekkert hafi komið út úr þeim rannsóknum. Bjarni vildi ekki gefa blaðamanninum nákvæmar upplýsingar um tímasetningar og upphæðir í málinu að því er kemur fram í Stundinni.
Ný gögn sem voru í morgun sýna að Bjarni, sem þá var þingmaður en er nú starfandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni, fyrir um 50 milljónir króna, dagana fyrir bankahrunið, eftir að hafa meðal annars setið fund sem þingmaður um alvarlega stöðu bankans, og miðlað þeim áfram til bankamanna. Dag neyðarlaganna, þann 6. október, miðlaði hann upplýsingum um störf Fjármálaeftirlitsins til framkvæmdastjóra hjá Glitni.
Í samtali við blaðamann The Guardian ræðir Bjarni einnig samskipti sem hann átti við Einar Örn Ólafsson, þá framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis og vinur Bjarna, sama dag og neyðarlögin voru sett. Klukkan 14.15 þann 6. október 2008 sendi Einar Örn tölvupóst á Atla Rafn Björnsson, aðstoðarmann Lárusar Weldings, bankastjóra Glitnis. Í honum stóð: „Bjarni ben segir að … fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna … einhver að tala við Jónas?“ Sá Jónas sem rætt er um er Jónas Fr. Jónsson, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Bjarni sagðist skilja af hverju fólki kunni að þykja viðskiptaumsvif hans á árunum fyrir hrunið að vera einkennileg og óviðeigandi. Þess vegna hafi hann hætt öllum afskiptum að viðskiptum skömmu eftir hrunið þar sem ekki væri viðeigandi fyrir hann að starfa áfram að þeim á sama tíma og hann starfaði áfram í stjórnmálum.