Bjarni Benediktsson, starfandi forsætisráðherra, lagði fram tillögu á ríkisstjórnarfundi í morgun að Guðlaugur Þór Þórðarson, starfandi utanríkisráðherra, verði settur til að fara með mál er varðar skipun í embætti héraðsdómara.
Alls sóttu 41 um átta stöður héraðsdómara sem auglýstar voru til umsóknar 1. september síðastliðinn. Umsóknarfrestur rann út 18. september síðastliðinn. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra ákvað að víkja sæti í málinu vegna umsóknar Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns. Í frétt á vef ráðuneytisins sem birt var 20. september sagði: „Telur hún að fyrir hendi séu aðstæður sem séu til þess fallnar að umsækjendur dragi óhlutdrægni hennar i efa. Hefur hún óskað eftir því við forsætisráðherra að öðrum ráðherra í ríkisstjórninni verði falin meðferð málsins. Dómnefnd um hæfni dómara sem starfar á grundvelli 4. gr. a laga um dómstóla, nr. 15/1998, mun fá umsóknirnar til meðferðar.“
Fimm dögum áður en að Sigríður tilkynnti um að hún myndi víkja sæti komst héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið lög við skipum dómara við Landsrétt í vor. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði átt að óska eftir nýju áliti dómnefndar um hæfi umsækjenda um dómarastöðu, ef hún taldi annmarka á áliti dómnefndarinnar. Í dómnum sagði að ljóst hafi verið að ráðherra var heimilt að leggja til skipun annarra umsækjenda en þeirra sem dómnefnd taldi hæfasta. „Það breytir hins vegar ekki því að ráðherra bar eftir sem áður stjórnskipulega ábyrgð á skipun dómara við Landsrétt [...] og var við hana bundinn af almennum reglum stjórnsýsluréttarins, bæði hvað varðar meðferð málsins sem og þá efnislegu ákvörðun sem ráðherra tók þegar hún lagði til við Alþingi að tilteknir einstaklingar yrðu skipaðir í embætti dómara.“
Það er talið vera brot gegn dómstólalögum og reglum stjórnsýsluréttar að ekki hafi verið borin saman hæfni og reynsla dómaraefna. Rökstuðningurinn hafi verið óljós og heildstæður samanburður á umsækjendum hafi ekki farið fram. „Ekki verður því fullyrt að ráðherra hafi valið 15 hæfustu einstaklingana í Landsrétt.“ Einn þeirra sem hæfisnefnd taldi á meðal 15 hæfustu, en var ekki skipaður eftir breytingar Sigríðar, var Ástráður Haraldsson, sem sækist líkt og fyrr segir eftir því að verða héraðsdómari nú.