Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt um að það hafi heimilað kaup Fjarskipta hf., móðurfélags Vodafone á Íslandi, á tilteknum eignum og rekstri 365 miðla hf. Samruninn verður háður skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar hafa gert sátt um. Í tilkynningu segir að þannig hafi „samrunaaðilar skuldbundið sig til þess að ráðast í aðgerðir til þess að tryggja samkeppni á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði. Jafnframt er aðgerðunum ætlað að stuðla að fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.“ Vonast er til þess að afhending á miðlunum geti farið fram 1. desember næstkomandi.
Þeirmiðlar sem seldir verða yfir frá 365 miðlum eru Stöð 2 og tengdar sjónvarpsstöðvar, útvarpsrekstur fyrirtækisins (t.d. Bylgjan, X-ið og FM957) og fréttavefurinn Vísir.is. Fréttastofa 365 fylgir með í kaupunum, en hún er ein stærsta fréttastofa landsins og sú eina sem heldur úti daglegum sjónvarpsfréttatíma utan fréttastofu RÚV.
Á meðal þeirra skilyrða sem samþykkt hafa verið eru að eigendur 365 miðla munu þurfa að selja annað hvort Fréttablaðið eða hlut sinn í Fjarskiptum innan tiltekins tíma til að rjúfa eignatengsl milli tveggja fjölmiðlafyrirtækja í samkeppni hvort við annað.
Þá segir í tilkynningunni: „Á milli Vodafone og 365 var, í tengslum við samrunann, gerður samstarfssamningur, þar sem samið var um að Vodafone skyldi fá aðgang að fréttum sem birtast munu í Fréttablaðinu, til birtingar á Vísi. Samkeppniseftirlitið taldi gildistíma þessa samnings vera of langan og leiddu viðræður eftirlitsins við Vodafone til þess að gildistíminn hefur verið styttur.“