Breski vogunarsjóðurinn Lansdowne Partners hefur keypt 6,05% hlut í Fjarskiptum, móðurfélagi Vodafone á Íslandi.
Tilkynning þar um barst í gegnum Kauphöll Íslands í gærkvöldi.
Fram kemur í tilkynningunni að viðskiptin hafi gengið í gegn þann 9. október, sama dag og tilkynnt var um að Samkeppniseftirlitið hefði samþykkt kaup Fjarskipta á stærstum hluta 365 miðla.
Gera má ráð fyrir að um sé að ræða viðskipti upp á rúman einn milljarð króna, sé miðað við markaðsvirði félagsins nú.
Á undanförnu ári hefur markaðsvirði félagsins aukist um ríflega 30 prósent, sem langt umfram meðaltal markaðarins, en á undanförnu ári hefur vísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins lækkað um rúmlega þrjú prósent.
Markaðsvirði Vodafone var við lokun markaða í gær 17,6 milljarðar króna. Stærstu hluthafar félagsins eru Gildi lífeyrissjóður með 13,25 prósent hlut og Lífeyrissjóður verslunarmanna með 11,82 prósent hlut. Fyrir utan lífeyrissjóði var Ursus ehf., félag Heiðars Guðjónssonar, stærst meðal einkafjárfesti með 6,4 prósent hlut.