Vogunarsjóðir raða sér efst á lista yfir stærstu eigendur Kaupþings, sé mið tekið af ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár. Félagið heldur á eignum sem áður tilheyrðu slitabúi hins fallna banka.
Samkvæmt ársreikningi Kaupþings fyrir síðasta ár námu heildareignir félagsins um áramót námu 409,7 milljörðum króna, og heildarskuldir eru skráðar 396,3 milljarðar, en sú tala hefur minnkað úr ríflega 800 milljörðum frá því árið 2015, eftir greiðslu stöðugleikagreiðslna til ríkissjóðs og uppgjörsins sem því fylgdi.
Ársverk hjá félaginu voru um 30 í fyrra en í stjórn voru Benedikt Gíslason, Piergiorgio LoGreco Alan Jeffrey Carr, Paul David Copley, sem jafnframt er forstjóri, og Óttar Pálsson.
Ein stærsta eign Kaupþings er eignarhlutur í Arion banka. Eignarhald á Arion banka hefur sem kunnugt er breyst á þessu ári, en eins og staða mála er nú á félagið Kaupskil, sem er í eigu Kaupþings, enn 57 prósent hlut í bankanum.
Íslenska ríkið á 13 prósent en vogunar- og fjárfestingasjóðir, sem allir eru eða voru í hluthafahópi Kaupþings í lok árs í fyrra, eiga afganginn, eða 30 prósent, samkvæmt upplýsingunum eins og þær birtast á vef Arion banka.
Eignarhlutir í félögum eru metnir á 160 milljarða og lánasöfn á 115 milljarða, miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs í fyrra. Þá var 87 prósent eignarhlutur í Arion banka metinn á 147 milljarða króna.
Stærsti hluthafi Kaupþings er TCA Oppurtunity Investments Fund með 26,9 prósent hlut, en á meðal stærstu eigenda eru stórar fjármálastofnanir og aðrir sjóðir, eins og sést á meðfylgjandi myndum.
Hluthafar í lok ársins voru 591, að því er fram kemur í ársreikningi, en flestir þeirra sem eiga hlut í félaginu eru þeir sem lýstu kröfu í bú Kaupþings.
Á meðal þeirra sem eiga hlut er félagið Wintris, sem er í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi formanns Miðflokksins. Á meðal stefnumála flokksins er að íslenska ríkið nýti forkaupsrétt á eignarhlutum í Arion banka, og vinni að endurskipulagningu á fjármálakerfinu með almannahagsmuni að leiðarljósi.
Ákveðið hefur verið að bíða með sölu á eignarhlutum í Arion banka, meðal annars vegna pólitískrar óvissu eftir stjórnarslit og boðun til kosninga, 28. október næstkomandi. Óvíst er hvenær af viðskiptum getur orðið, en meðal þess sem að var stefnt var á skrá hlutafé Arion banka á markað.
Eignarhlutur Wintris í Kaupþingi nemur um 0,01 prósenti af heildarhlutafé, samkvæmt hluthafalista félagsins og ársreikningi. Stærstur hluti af heildarfjölda hluthafa á litla hluti í félaginu, eða á bilinu 0,006 til 0,01 prósent.
Um 82 prósent af heildarhlutafé félagsins er undir stjórn 10 stærstu hluthafana, þar sem vogunar- og fjárfestingasjóðir, ásamt stórum bandarískum og evrópskum fjármálafyrirtækjum, eru mest áberandi á lista.