Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, stendur í ströngu þessi misserin, en hann hefur opinberlega deilt við Donald Trump Bandaríkjaforseta um spennuna á Kóreuskaga. Hann segir að Bandaríkjaforseti hafi þó samningsvilja alveg þar til fyrstu sprengjunni hefur verið varpað.
Í viðtali við CNN segir Tillerson að hann muni reyna til þrautar að semja, og vinna að friðsamlegri lausn en eins og kunnugt er þá hefur Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, ítrekað hótað Bandaríkjunum og bandamönnum því að láta sprengjur falla á „óvinina“. Sérstaklega hefur ógnin verið mikil í Japan og Suður-Kóreu, en í tilraunaskotum hersins í Norður-Kóreu hafa flaugar ítrekað flogið yfir japanskt yfirráðasvæði.
I told Rex Tillerson, our wonderful Secretary of State, that he is wasting his time trying to negotiate with Little Rocket Man...
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 1, 2017
Trump hefur opinberlega gagnrýnt Tillerson og sagt að Kim Jong Un muni ekki hlusta og það sé tilgangslaust að reyna að semja við hann.
Svo virðist sem einstök ríki Bandaríkjanna séu mörg hver farin að búa sig undir að stríðsátök geti brotist út, og árás gerð á Bandaríkin með langdrægum flaugum.
Í tímaritinu Foreign Policy var fjallað um það í september síðastliðnum, að í Kaliforníu, fjölmennasta ríki Bandaríkjanna með 38 milljónir íbúa, væru yfirvöld að taka kjarnorkuógnina alvarlega.
Er meðal annars vísað til skýrslu og leiðbeininga sem hafa verið gefin út um hvernig skuli bregðast við, ef til kjarnorkuárásar komi. Var þessar upplýsingar sendar til ýmissa opinberra stofnanna í Kaliforníu í ágúst síðastliðnum, að því er fram kemur í umfjöllun Foreign Policy.