Jón Trausti Reynisson, annar ritstjóra Stundarinnar, var afar ósáttur við lögbannið sem sett hefur verið á fréttaflutning fjölmiðilsins upp úr gögnum frá Glitni er varða viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans í aðdraganda bankahrunsins.
Hann segir að lögbannið taki til þess, að Stundin megi ekki vinna fréttir upp úr gögnunum og geti því ekki birt frekari fréttir um mál, þar til réttaróvissu um heimild til þess hefur verið eytt.
Málið er nú á leiðinni fyrir dómstóla, en að sögn Jón Trausta hefur Glitnir Holdco ehf., eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis, viku til þess að rökstyðja lögbannið fyrir dómstól og leggja fram stefnu máli sínu til stuðnings. Ljóst sé að niðurstaða muni ekki fást í málið fyrr en eftir kosningarnar 28. október, næstkomandi.
Jón Trausti segir að öllum kröfum Glitnis Holdco hafi verið kröftuglega mótmælt af Stundinni, enda eigi umfjöllunin erindi við almenning. Hún fjalli um samspil viðskipta og stjórnmála, í aðdraganda hrunsins.
Hann segir aðgerðir eins og þessar „hættulegar í lýðræðinu“, og hann telur að dómstólar muni ekki fallast á þessa heftun á tjáningafrelsinu þegar á reynir.
Stundin hefur unnið úr gögnum og birt umfjöllun, í samstarfi við The Guardian og Reykjavík Media, að einhverju leyti. Lögbannið nær einnig til frétta The Guardian og Reykjavík Media.
Umfjöllunin hefur birst í röð frétta þar sem fjallað erum lánveitingar, hlutabréfaviðskipti, persónulegar ábyrgðir á lánum, og samskipti Bjarna Benediktssonar við bankamenn og viðskiptafélaga, í aðdraganda bankahrunsins.