Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, segir að lögbann Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media sem byggist á gögnum úr Glitni og fjallar að mestu um hann, komi á einstaklega óheppilegum tíma. Það sé út í hött á þessum tímapunkti að setja lögbann á fréttaflutninginn þótt að hann vilji ekki gera lítið úr því að í gögnunum séu upplýsingar um þúsundir Íslendinga sem séu illar fengnar. Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna á RÚV.
Þar segir Bjarni að umfjöllun um þátttöku hans í viðskiptalífi hafi staðið næstum áratug aftur í tímann, vegna mála sem snerta hann persónulega og hafi ekkert með almannahagsmuni að gera. Undanfarið hafi slíkar fréttir birst í tugatali.
„Ég hef aldrei gert neina tilraun til að stöðva slíkan fréttaflutning. Ég hef bara leitast við að koma fram með svör. Og ég tel að við eigum að byggja okkar opna samfélag upp með þeim hætti að fjölmiðlar séu frjálsir af því að flytja fréttir, fjalla um málefni, sérstaklega þau sem varða almenning[...]Ég hef fyrir löngu, löngu síðan sætt mig við það að sem opinber persóna þurfi að gilda önnur viðmið fyrir mig. Og í ljósi þess að umræðan um þessi málefni er dálítið orðinn hlutur, þá finnst mér lögbann á þessum tímapunkti eiginlega út í hött hvað mig sjálfan varðar. En ég vil ekki með því gera lítið úr því að það kunna að vera þúsundir Íslendinga, eins og maður les í fréttunum, sem hægt er að fá upplýsingar um í einhverjum gögnum sem eru illa fengin. Og það þurfi að fara sína leið í kerfinu.“
Sýslamaðurinn á höfuðborgarsvæðinu féllst í gær á kröfu félagsins GlitnirHoldco, sem heldur á eftirstandandi eignum þrotabús Glitnis, um að lögbann yrði sett á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media, sem byggir á gögnum innan úr fallna bankanum. Í fréttatilkynningu sem send var út í gær sagði að ögbannskrafan hafi verið lögð fram hjá sýslumanni á föstudag.
Þar sagði einnig Fjármálaeftirlitinu hefði verið tilkynnt um brot á bankaleynd með fréttaflutningnum, og að Glitnir hefði ráðið lögmannsstofu í Bretlandi til að gæta hagsmuna sinna gagnvart fjölmiðlinum The Guardian, sem hefur fjallað um gögnin í samvinnu við Stundina og Reykjavík Media.