Samkvæmt gögnum frá Airbnb voru heilar íbúðir á skrá á landinu öllu í ágúst sl. tæplega 5.000 talsins og hafði þeim fjölgað um tæp 65 prósent frá sama tíma á síðasta ári.
Frá þessu er greint í ritinu Fjármálastöðugleika, sem Seðlabanki Íslands gefur út.
Mikill meirihluti íbúðanna er á höfuðborgarsvæðinu.
Nýting slíkra íbúða heldur jafnframt áfram að aukast og voru um 77 prósent framboðinna gistinátta bókuð í ágúst.
Í þeim mánuði voru að jafnaði bókaðar um 19 nætur á hverja slíka íbúð. Fjöldi útleigðra nátta hefur aukist jafnt og þétt sl. 2 ár og nam meira en 13 nóttum í mánuði það sem af er árinu. Því má gera ráð fyrir að nokkur hluti þessara íbúða nýtist ekki til annarrar búsetu en skammtímaútleigu.
Til samanburðar voru 3.255 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í febrúar samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins. „Fleygurinn sem skammtímaleigan rekur milli framboðs og eftirspurnar á íbúðamarkaði höfuðborgarsvæðisins virðist því stór,“ segir í Fjármálastöðugleika.
Í ritinu segir enn fremur en að fátt bendi til annars en að eftirspurn eftir íbúðum muni halda áfram að aukast, „sem ætti að öðru óbreyttu að stuðla að frekari verðhækkunum“.
Fram kemur að efnahagur
heimila fer batnandi, aðflutningur fólks, sem þarf þak yfir höfuðið, var
meiri á fyrri hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra og bætist við náttúrulega fólksfjölgun.
Fasteignaverð hefur að meðaltali hækkað um tæplega 20 prósent á síðastliðnum 12 mánuðum.