Margt bendir til þess að ákveðnu hámarki hafi verið náð í vexti ferðaþjónustunnar, sé mið tekið af stafrænum hagvísum sem mæla áhuga ferðamanna á Íslandi.
Þetta er eitt af því sem lesa má um í nýrri útgáfu Vísbendingar, sem kemur út á morgun, en Birgir Haraldsson, hagfræðingur og einn stofnenda ráðgjafafyrirtækisins Nightberg í New York, sem meðal annars veitir vogunarsjóðum og rekstrarfélögum ráðgjöf um fjárfestingar, skrifar grein um mælingar sínar á ferðaþjónustunni og áhuga á landinu.
Í grein sinni fjallar Birgir um mikinn vöxt ferðaþjónustunnar, og hvernig fylgni hans við áhuga á Íslandi, og hvernig hann birtist, meðal annars á samfélagsmiðlum.
„Það bendir því allt til þess á þessu stigi að ákveðnu vaxtarhámarki hafi verið náð, þar sem nýtni hótelherbergja hefur verið að dragast saman meðfram því að stafrænir hagvísar fyrir ferðaþjónustuna hafa kólnað. Þetta þýðir ekki að hrun vofi yfir greininni, en bendir hins vegar til þess að sterkari kröfur um rekstrarhagkvæmni muni einkenna ferðaþjónustuna næstu misserin.
Ef engin stóraukning myndi eiga sér stað í stafræna „hitanum“ í kringum Ísland sem ferðastað yfir komandi mánuði þá væri ástæða til að hafa meiri áhyggjur af væntum rekstrarárangri fyrirtækja innan greininnar á næsta ári.
Mikilvæg spurning er einnig hversu sterk áhrifin muni verða fyrir ferðaþjónustuna af þátttöku íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi næsta sumar. Það má segja að líklegt sé að ekkert nema jákvætt geti komið út úr þeirri auglýsingu sem mótið verður fyrir Ísland, og áhrifin á ferðaþjónustuna líkleg til að vera í beinu hlutfalli við árangur liðsins. Hæsta gildi hagvísinsins hingað til kom daginn eftir sigurinn á Englandi á Evrópumótinu 2016 og var drifið áfram af ensku Wikipedia síðu landsliðsins. Núna nýlega þegar Ísland tryggði sér sæti á heimsmeistarmótinu á Rússlandi þá sáum við hagvísinn skjótast upp í sitt hæsta gildi síðan í nóvember á síðasta ári,“ segir meðal annars í grein Birgis, en ný Vísbending verður send til áskrifenda á morgun.
Hægt er að gerast áskrifandi hér.