Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, tók í síðustu viku á móti æðstu viðurkenningu Bandarísku erfðafræðisamtakanna, ASHG, og gagnrýndi við það tilefni Donald J. Trump Bandaríkjaforseta.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Verðlaunin eru kennd við William Allan og hafa verið veitt árlega síðan 1961, en formlega var tilkynnt um að Kári hlyti verðlaunin 17. júlí síðastliðinn.
Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi framlag til erfðavísindanna og þykir mikill heiður að hljóta þau. Kári tók á móti verðlaununum á ársfundi samtakanna í Orlando í Flórída.
Samkvæmt Morgunblaðinu beindi Kári spjótum sínum að Trump og þeim skoðunum sem hann hefur viðrað á opinberum vettvangi. „Þeir sem vilja reisa háa múra á landamærum milli landa, þeir sem vilja meira af fangelsum fyrir innflytjendur og þeir sem vilja mismuna fólki vegna einmitt þeirra kosta sem hafa skapað þá fjölbreytni sem við fögnum,“ sagði Kári. Hann bætti enn fremur við: „Við verðum að mótmæla hávært þessari misnotkun á starfi okkar og minna fólk á að erfðafræðilega eru í raun engir flóttamenn, ólöglegir innflytjendur eða vondir múslimar, það eru bara manneskjur sem eru bræður okkar og systur sem fæddust öll jöfn okkur þó hvert og eitt sé mismunandi og sem slíkt leggi sitt af mörkum til okkar frábæru fjölbreytni. Ég lít á það sem skyldu mína sem erfðafræðings að lýsa þessari skoðun minni á heiminum og ég vænti þess að þið gerið öll slíkt hið sama,“ sagði Kári og hlaut að launum dúndrandi lófatak viðstaddra, samkvæmt frásögn Morgunblaðsins.