Glitnir HoldCo mun í dag höfða staðfestingarmál vegna lögbanns sem félagið fékk sett á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media sem byggði á gögnum úr gamla Glitni fyrir viku síðan. Glitnir HoldCo, sem er eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis, þurfti að höfða málið innan viku frá því að lögbannið var samþykkt af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Dagurinn í dag er því sá síðasti sem félagið gat höfðað málið. Ef málið væri ekki höfðað í dag hefði lögbannið dottið úr gildi.
Lögbannið var sett til að hindra Stundina og Reykjavík Media í að segja fleiri fréttir úr gögnunum og verja Glitni HoldCo þannig fyrir skaðabótakröfu frá fyrrverandi viðskiptamönnum Glitnis. Þegar lögbannið var sett höfðu allar fréttir sem höfðu birst uppúr gögnunum fjallað um Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, og fjölskyldu hans og tengsl viðskipta og stjórnmála. Í fréttunum hafði verið sýnt fram á að ýmislegt sem Bjarni hafði sagt opinberlega um viðskipti sín stangaðist á við þau gögn sem miðlarnir voru með undir höndum.
Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Stundarinnar, var einn gesta sjónvarpsþáttar Kjarnans á miðvikudag í síðustu viku þar sem lögbannið var rætt. Þar sagði hún að þegar hefði skapast alvarlegt ástand með málinu. „Þöggunin á sér stað núna. Lögbannið er á. Það á bara eftir að staðfesta það hjá dómstólum. Lögbannið var lagt á af fulltrúa framkvæmdavaldsins. Dómstólar hafa ekki fengið þetta mat, heldur bara fulltrúi framkvæmdavaldsins. Það er bara alvarlegt. Ég lít svo á að núna séum við að upplifa þöggun.“
Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Gagnsæis, var einnig gestur þáttarins. Hann sagði þar að verið væri að krefjast aðgerða sem „í rauninni væri óhugsandi að gætu átt sér stað nema í einhverju harðstjórnar- og einræðisríki, að þeirra sé krafist í samfélagi eins og okkar. Ég held að við ættum að gera þá kröfu líka til fyrirtækja að þau séu tilbúin að verja og styðja samfélagssáttmálann og eðlilega lýðræðislega umræðu.“