Glitnir Holdco hefur lagt fram nýja kröfu um að miðlunum Stundinni og Reykjavík Media verði bannað að birta eða fá aðra miðla til að birta fréttir byggðar á gögnunum frá Glitni.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, en blaðið vitnar til stefnu Glitnis Holdco.
Lögbannið, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt á frekari umfjöllun, mun að líkindum standa fram yfir kosningar þar sem líklegt er að ekki verði komin niðurstaða í málið fyrr en eftir þær, en gengið verður til kosninga næsta laugardag, 28. október.
Ingólfur Hauksson, framkvæmdstjóri Glitnis Holdco, segir að engar ákvarðanir hafi veriðteknar um það hvort höfðað verði sérstakt mál vegna umfjöllunar annarra miðla en Stundarinnar eða Reykjavík Media, en RÚV hefur nú þegar fjallað um upplýsingar sem kom upp úr gögnum frá Glitni og varða Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins.
Lögbannið hefur verið harðlega gagnrýnt, og sagði formaður Blaðamannafélags Íslands, Hjálmar Jónsson, að sýslumaður ætti ekkert erindi inn á ritstjórnir fjölmiðla og að lögbannið væri gróf aðför að tjáningarfrelsinu.