Frambjóðendur tíu flokka sem eru í framboði hafa svarað játandi spurningunni hvort þingmönnum beri siðferðisleg og pólitísk skylda til að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi boðar til. Eini flokkurinn sem eru í framboði sem eiga engan fulltrúa sem svarar þeirri spurningu játandi eru Sjálfstæðisflokkurinn.
Þetta kemur fram í áskorun Stjórnarskrárfélagsins en á vefsíðu félagsins eru frambjóðendur krafðir svara um afstöðu sína gagnvart nýju stjórnarskránni.
Kosið um málið 2012
Þann 20. október 2012 var kosið um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Um var að ræða alls sex spurningar en sú fyrsta var hvort viðkomandi vildi að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Alls sögðu 64,2 prósent þeirra sem greiddu atkvæði já við þeirri spurningu. Kjörsókn var 49 prósent.
Nú, fimm árum síðar, hefur ekki verið samþykkt ný stjórnarskrá. Stjórnarskrárfélagið hefur unnið að því að réttur þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa sé virtur. Hluti af þeirri vinnu er áskorunin þar sem frambjóðendur eru krafnir svara við ofangreindri spurningu.
Rúmur helmingur hefur sagt já
Alls hafa 63 af 118 frambjóðendum sem áskorunin nær til svarað henni játandi. Allir frambjóðendur Pírata og Samfylkingar sem sitja í tveimur efstu sætunum á framboðslista þeirra hafa svarað játandi spurningunni hvort þingmönnum beri siðferðisleg og pólitísk skylda til að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi boðar til. Flestir hjá Vinstri grænum hafa einnig svarað játandi eða tíu af tólf og sex af átta hjá Alþýðufylkingunni.
Ellefu frambjóðendur Bjartrar framtíðar svara áskoruninni játandi. Tveir frambjóðendur Dögunar hafa svarað játandi og aðeins einn hjá Sjálfstæðisflokknum hefur svarað. Brynjar Níelsson svarar neitandi og er hann einn sem tekið hefur þá afstöðu.
Einn frambjóðandi hjá Miðflokknum hefur tekið afstöðu, það er Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Sömu sögu er að segja hjá Viðreisn þar sem Arnar Páll Guðmundsson hefur tekið afstöðu. Fimm af tólf hjá Flokki fólksins svara játandi og tveir af tólf hjá Framsókn.
„Hér gefst almenningi kostur á að spyrja tvo efstu menn á listum stjórnmálaflokka um afstöðu þeirra til nýju stjórnarskrárinnar og lýðræðis. Stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hafa hunsað vilja kjósenda í fimm ár. Því er mikilvægt að krefja frambjóðendur flokkanna svars einmitt núna,“ segir á síðunni.
Þar segir jafnframt að hlutverk Stjórnarskrárfélagsins sé þríþætt. Í fyrsta lagi að vinna að því að grundvallarréttur þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa sé virtur og í öðru lagi að efla umræðu um stjórnarskrármál á Íslandi og um leið vitneskju almennings um mikilvægi stjórnarskrár í íslensku samfélagi. Í þriðja lagi að fræða og safna saman upplýsingum um stjórnarskrármál og gera aðgengilegar almenningi.
Fréttin var uppfærð klukkan 13:36 með nýjum upplýsingum.