Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) hækkaði í dag lánshæfismat Íslandsbanka og Landsbankans úr BBB/A-2 í BBB+/A-2 með stöðugum horfum. Lánshæfismat Arion banka var einnig hækkað í sömu einkunn.
Íslenska ríkið á báða bankana að nær öllu leyti, en samanlagt eigið fé þeirra nemur 429 milljörðum króna, sé miðað við stöðuna um síðustu áramót.
Ríkið á síðan 13 prósent hlut í Arion banka en eigið fé hans nam 211 milljörðum um síðustu áramót.
Hækkun á lánshæfismati bankans byggir að mestu á batnandi rekstrarumhverfi íslenska bankakerfisins í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta og lækkandi skuldastöðu fyrirtækja og heimila, segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir þetta ánægjulega staðfestingu á því að efnahagur Landsbankans sé traustur. „Hærra mat S&P á lánshæfi Landsbankans er til marks um sterka stöðu bankans og íslensks efnahagslífs og er í takti við væntingar bankans. Lánshæfiseinkunn Landsbankans hjá S&P hefur nú hækkað um þrjú þrep á þremur árum. Hærra lánshæfismat hefur, ásamt öðru, leitt til þess að kjör og aðgengi bankans að fjármögnun erlendis hefur batnað umtalsvert á undanförnum árum,“ segir Lilja Björk.
Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka, fagnar því að lánshæfismatið hafi hækkað, og segir að það skili sér til viðskiptavina og opni frekar dyr að fjármagnsmörkuðum erlendis.
Stöðugar horfur á einkunn bankanna er sagt endurspegla þá skoðun S&P að íslenskt efnahagslíf muni áfram standa á traustum fótum.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir stöðu Arion banka sterka, og segir að hækkun lánshæfismatsins sé rökrétt í ljósi efnahagslegar þróunar á Íslandi undanfarin misseri. „Þetta er ánægjulegt og kemur ekki á óvart. Staða Arion banka er mjög góð, ekki síst þegar horft er til mikilvægra þátta eins og eiginfjárstöðu bankans. Jafnframt hefur Ísland notið hagvaxtar að undanförnu sem er umfram það sem almennt gerist í Evrópu. Hækkun lánshæfismats er því rökrétt skref og fyllilega í takt við þá jákvæðu þróun sem átt hefur sér stað hjá bankanum og hér á landi. Við finnum vel fyrir auknum áhuga erlendra fjárfesta, bæði á Arion banka og íslensku efnahagslífi, og mun hækkun lánshæfismats auka þann áhuga enn frekar.“