Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag ummæli fjögurra fréttamanna fréttastofu 365 dauð og ómerk. Þá eru blaðamennirnir fjórir einnig dæmdir til að greiða tveimur mönnum miskabætur vegna frétta um hið svokallaða Hlíðamál.
Forsaga málsins er sú að Fréttablaðið birti forsíðufrétt í nóvember 2015 undir fyrirsögninni: „Íbúð í Hlíðunum útbúin til nauðgana“. Áður hafði verið sagt frá rannsókn lögreglu á tveimur aðskildum kynferðisbrotamálum vegna meintra árása í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík í október. Tvær konur kærðu tvo karlmenn fyrir kynferðisbrot í málinu og í frétt Fréttablaðsins sagði að „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar“. Fram kom í fréttinni að mönnunum hafði svo verið sleppt að lokinni skýrslutöku.
Mikil reiðialda reis í kjölfar fréttarinnar, boðað var til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu og mennirnir voru nafngreindir á samfélagsmiðlum og birtar af þeim myndir.
Rannsóknir á nauðgunarkærunum fóru á borð héraðssaksóknara og lét hann bæði málin niður falla. Annar maðurinn hafði einnig kært aðra konuna fyrir kynferðisbrot en það mál var líka látið niður falla.
Mennirnir kröfðust þess að fréttamönnunum yrði gert að greiða hvorum um sig tólf og hálfa milljón vegna ítrekaðra ummæla sem þeir töldu ærumeiðandi og vegna friðarbrots í fréttum sem miðlar 365 sögðu af málinu. Miskabótunum sem fréttamönnunum var gert að greiða voru mun lægri.
Nadine Guðrún Yaghi, fréttamaður, var dæmd til að greiða hæstu miskabæturnar eða hvorum um sig 700 þúsund krónur. Þá var Þórhildi Þorkelsdóttir gert að greiða öðrum manninum 100 þúsund krónur í miskabætur en hinum 200 þúsund krónur. Hún var einnig dæmd fyrir friðhelgisbrot fyrir að hafa fara inn í stigagang annars mannsins. Heimi Má Péturssyni og Stefáni Rafni Sigurbjörnssyni var báðum gert að greiða hvorum manninum um sig 50.000 krónur.
Nokkur ummæli, sem voru endurtekin í fréttum 365 af málinu, voru dæmd dauð og ómerk. Fyrirtækinu var gert að birta dóminn að viðlögðum dagssektum og gera grein fyrir honum í Fréttablaðinu, visir.is, útvarpsfréttum Bylgjunnar og fréttum Stöðvar 2.