Markaðsvirði Amazon jókst um rúmlega 13 prósent í dag, í ótrúlegum hækkunum stóru tæknifyrirtækjanna á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum.
Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, varð við þessa hækkun ríkasti maður heims en eignir hans eru nú metnar á meira en 90 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 9.450 milljörðum króna.
Stærstur hluti eigna hans er bundinn við Amazon, en hann á ennþá ríflega 17 prósent hlut í félaginu.
Næstur á eftir honum í röðinni er nágranni hans við Lake Washington í útjaðri Seattle, Bill Gates, sem stofnandi Microsoft með Paul Allen, en eignir hans eru metnar á um 88,5 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 9 þúsund milljörðum króna.
Markaðsvirði Amazon er nú 528,8 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur 55 þúsund milljörðum króna.
Verðmæti Apple, verðmætasta hlutafélags heims, hækkaði um 3,58 prósent í dag, og nemur markaðsvirði félagsins nú 842 milljörðum króna, eða sem nemur um 90 þúsund milljörðum króna.
Greinendur spá því, að Apple gæti fyrr eða síðar, náð því að vera með verðmiða upp á meira en eitt þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 105 þúsund milljarða króna.
Alphabet (Google) hækkaði um rúmlega 4 prósent í viðskiptum dagsins, og nemur markaðsvirði félagsins nú tæplega 710 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 75 þúsund milljörðum króna.
Verðmiðinn á Microsoft hækkaði einnig mikið í dag, eða um 6,4 prósent. Verðmiðinn á félaginu er nú kominn upp í 646 milljarða Bandaríkjadal, eða sem nemur um 70 þúsund milljarða króna.
Óhætt er að segja hluthafar þessara félaga hafi ávaxtað eignir sínar vel að undanförnu, en öll þessi félög eru nú fjögur verðmætustu hlutafélög heimsins. Amazon og Microsoft eru með höfuðstöðvar í Seattle en Apple og Alphabet í Kaliforníu, og teljast til helstu flaggskipa Sílikondalsins. Öll félögin eru því með hjartað í starfseminni á Vesturströnd Bandaríkjanna.
Facebook er síðan fimmta stærsta fyrirtækið, með verðmiða upp á 516 milljarða Bandaríkjdala, 54 þúsund milljarða króna, en hlutabréf þess hækkuðu um meira en 4 prósent í dag.
Það er með höfuðstöðvar í Sílikondalnum í Kaliforníu.
Ástæðan fyrir hækkunum í dag eru sagðar góðar rekstrartölur, sem komu greinendum og fjárfestum á óvart, og jafnvel enn hraðari uppbygging - almennt á litið - en búist hafi verið við, áður en rekstraruppgjör fyrir síðustu þrjá mánuði voru kynnt, að því er segir í umfjöllun CNBC.