„Hér verður ekki heldur farið nánar út í útfærslu á hugsanlegu gegnumstreymiskerfi eða gerð tilraun til nákvæmra útreikninga á þjóðhagslegum afleiðingum. Það er efni í viðamikla rannsókn. Hins vegar blasir við að óhjákvæmilegt er að skoða betur hvert stefnir í þróun lífeyriskerfis Íslendinga og e.t.v. gera á því breytingar. Hin mikla hækkun iðgjalda í sjóðsöfnunarkerfinu sem samið hefur verið um virðist ekki hafa verið hugsuð til enda. Það þarf að gera fyrr eða síðar. Jafnframt virðist brýnt að skoða hvort núverandi kerfi býr nægilega vel að þeim elstu, sem eiga almennt lítil réttindi í lífeyriskerfinu.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur ítarlegri grein Gylfa Magnússonar, doktors í hagfræði, fyrrverandi viðskiptaráðherra og dósents við Háskóla Íslands, í Vísbendingu, en í greininni fjallar hann um stöðu íslenska lífeyrissjóðakerfisins.
Nýtt tölublað Vísbendingar kom til áskrifenda í dag.
Hann segir að skoða þurfi hvernig lífeyrisréttindi ákveðinna kynslóða komi út miðað við núverandi stefnu. „Það er vitaskuld ansi langt í að fólk fari á eftirlaun sem hefur greitt í lífeyrissjóð skv. SALEK samkomulaginu alla starfsævina. Þó er fyrirsjáanlegt að þeir sem fara á eftirlaun eftir 10-20 ár eða síðar muni hafa töluvert betri lífeyrisréttindi en eldri kynslóðir. Þeirra lífeyrir mun því koma í ríkari mæli frá lífeyrissjóðum en framlag almannatrygginga, sem eru gegnumstreymiskerfi, skipta sífellt minna máli. Að því hefur raunar beinlínis verið stefnt. Hagur ríkissjóðs mun batna vegna þessa, útgjöld almannatrygginga lækka og ríki og sveitarfélög innheimta tekjuskatt og útsvar af greiðslum úr lífeyrissjóðum.
Það tryggir nokkuð vel hag þeirra sem eru miðaldra og yngri í dag – að því gefnu að öll þessi sjóðsöfnun gangi upp – en eftir sitja aldraðir nútímans með frekar rýr lífeyrisréttindi og afar naumt skammtaðar greiðslur úr almannatryggingum.“
Kaupa má áskrift af Vísbendingu hérna.