Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fundar í dag með leiðtogum flokkanna á Alþingi og er fyrsti fundurinn með Bjarna Benediktssyni klukkan 10:00. Á eftir honum hittir Guðni Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna.
Ljóst er að nokkuð flóknar stjórnarmyndunarviðræður eru nu að fara í gang, þó ómögulegt sé að segja til um hversu langan tíma þarf til að mynda nýja ríkisstjórn.
Afar erfiðlega gekk að koma saman ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, með Sjálfstæðisflokki, Bjartri framtíð og Viðreisn, en hún sprakk innan við ári eftir að hún var mynduð, eins og frægt er orðið.
Hún var mynduð eftir margar tilraunir flokkanna til að koma saman stjórn og stóð tæpta frá fyrsta degi, með 32 þingmenn á móti 31 þingmanni stjórnarandstöðuflokkanna.
Þessi þrír flokkar töpuðu 12 þingmönnum í kosningunum á laugardaginn; Björt framtíð þurrkaðist næstum alveg út og tapaði öllum sínum fjórum þingmönnum, Viðreisn tapaði 3 en er ennþá með fjóra, og Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 5 þingmönnum, og er með 16.
Stjórnarandstöðuflokkarnir bættu við sig einum manni og eru nú með 32 þingmenn. Vinstri græn bættu einum við sig og eru nú með 11 í þingflokki, Framsóknarflokkur hélt sínum átta þingmönnum, Samfylkingin bætti við sig fjórum mönnum en Píratar töpuðu fjórum og eru með 6 þingmenn nú.
Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru svo með ellefu þingmenn, Miðflokkur 7 og Flokkur fólksins 4.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa báðir talað fyrir því að vilja fá umboðið til þess að mynda stjórn, og það sama hefur Katrín Jakobsdóttir gert. „Traust ríkisstjórnar er ekki mælt í fjölda flokka eða í þingstyrk,“ segir Katrín Jakobsdóttir, spurð hvort hún treysti sér til að leiða ríkisstjórn núverandi stjórnarandstöðuflokka, í Morgunblaðinu í dag. „Mér finnst það skynsamlegt að við förum yfir það í okkar herbúðum hvort við metum það sem vænlegan kost,“ segir Katrín í viðtali við Morgunblaðið.
Fundir Guðna eru í þessari röð:
Fundur forseta og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, verður klukkan 10.
Fundur forseta og Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, verður klukkan 11.
Fundur forseta og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, verður klukkan 12.
Fundur forseta og Loga Más Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, verður klukkan 13.
Fundur forseta og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, verður klukkan 14.
Fundur forseta og Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, fulltrúa Pírata, verður klukkan 15.
Fundur forseta og Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, verður klukkan 16.
Fundur forseta og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, verður klukkan 17.