„Mér finnst vanta nú sem fyrr áherslu á það að trúa ekki öllu sem þú lest. Þótt þér finnist það geta verið satt þýðir ekki að það sé satt. Bara að eitthvað meiki sens, þýðir ekki að það sé satt. Bara það að þér detti það í hug, þýðir ekki að það sé satt. Maður þarf að efast. Efast um upplýsingar sem maður fær.“ Þetta segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í sjónvarpsþættinum Kjarnanum í kvöld.
Þar er til umfjöllunar falsfréttir og áróður sem miðlað er í gegnum samfélagsmiðla, áhrifamáttur samfélagsmiðla í nútímasamfélagi og hvernig okkur gengur að takast á við þessar breytingar. Í aðdraganda nýliðinna kosninga voru áróðurssíður á borð við Kosningar 2017, Kosningavaktina, Kjóstu og Aldrei aftur vinstristjórn áberandi. Um er að ræða nafnlausa hópa, suma hverja vel fjármagnaða, sem dreifðu áróðri sem í besta falli mætti flokkast sem upplýsingaröskum og í versta falli sem rætnar lygar.
Helgi Hrafn skrifaði grein um málið í aðdraganda kosninga þar sem hann hvatti fólk til að refsa flokkum fyrir árásarauglýsingar. Hann segir það í raun og veru alltaf hafa vantað í mannlegt samfélag að gera greinarmun á því sem er satt og því sem er ósatt. „Mannfólkið í eðli sínu er frekar lélegt í þessu. Bara almennt og hefur alltaf verið. [...]Þvæla og útúrsnúningur hefur alltaf verið svolítið sannfærandi. Hefur alltaf verið svolítið öflugt fyrirbæri.“
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastýra fjölmiðlanefndar, er einnig gestur þáttarins.
Hún segir þar að það hefði alveg mátt reikna með því að það sama gerist á Íslandi sem gerist annars staðar. Því hafi áróðurs- og árásarauglýsingar í gegnum samfélagsmiðla ekki átt að koma á óvart. „Ég held líka að eitt af því sem er oft sagt í umræðunni er að áróður hefur alltaf verið til. Við höfum alltaf reynt að hafa áhrif á fólk, skoðanir fólks og svo framvegis. En það sem við verðum að hafa í huga er að við erum búin að gefa alveg gríðarlega mikið af upplýsingum um okkur. Það þýðir það að það eru stórfyrirtæki sem hafa mjög miklar upplýsingar um hvernig við erum, svona prófíla um okkur, sem að gefa ákveðnar vísbendingar um það hvaða skoðanir við höfum og svo framvegis. Það er þarna sem að það sem heitir á ensku „micro targeting“ kemur inn. Það er að segja mismunandi framsetning á t.d. gildum eða hvernig maður hefur tilfinningar, það er hægt að nota það gagnvart ólíkum hópum í dag.“