Aukin notkun hefur ekki áhrif á sölu nikótínlyfja á Íslandi að sögn talsmanna lyfjafyrirtækja sem selja slík lyf. Meðal ástæðna sem þeir gefa upp er að markhópurinn sé ekki sá sami og að fólk sem veipi noti síður nikótínlyf.
Aukin rafrettuvæðing á Íslandi hefur margar hliðar. Sumir hafa litið á hana sem jákvæðan þátt í því að hjálpa fólki að hætta að reykja en aðrir hafa haft áhyggjur af því að neysla á nikótíni aukist hjá ungu fólki í staðinn.
Málið hefur verið umdeilt eins og sýndi sig þegar Óttarr Próppe, þáverandi heilbrigðisráðherra, lagði fram frumvarp sitt um rafrettur síðastliðið vor.
Mismunandi reglur milli Norðurlandanna
Viðar Jensson, verkefnisstjóri hjá Landlækni, segir að mikill áhugi sé hjá embættinu að skoða mál sem tengjast rafrettum frekar. Hann segist fylgjandi því að sett verði lög og reglugerðir varðandi rafrettur, m.a. til að tryggja neytendavernd.
Hann bendir á að mismunandi reglur séu á Norðurlöndunum og sé til að mynda enginn greinarmunur gerður á rafrettum og sígarettum í Finnlandi. Danir hafi verið fyrstir til að lögleiða rafrettur en þar sé neyslan bönnuð á afmörkuðum stöðum.
Samdráttur ekki merkjanlegur
Samkvæmt Báru Einarsdóttur, markaðsstjóra hjá lyfjafyrirtækinu Vistor, hefur aukin notkun rafretta undanfarin misseri ekki haft áhrif á sölu nikótínlyfja hjá fyrirtækinu. Í byrjun október greindi hún stöðuna og athugaði hvort samdráttur hefði orðið í sölu á nikótínlyfjum. Þau hafi verið hrædd um samdrátt en að hann hefði ekki verið merkjanlegur og sé það ekki eins og er.
Hún segir að fyrirtækið greini ekki samdrátt nema milli lyfja. Til dæmis sé samdráttur í innsogslyfjum en skýringuna telur hún vera að fólk hafi fært sig yfir í önnur vinsælli nikótínlyf. Einnig sé samdráttur í tungurótartöflum og telur hún að margir átti sig ekki á því að fleiri lyf séu til en nikótínlyfjatyggjó.
Ungt fólk notar frekar rafrettur
Hún telur að ekki sé um að ræða sama markhóp, þ.e. að unga fólkið sem notar rafrettur í mestu mæli sé ekki að versla nikótínlyf annars. Hún segir að varasamt geti verið að nota rafretturnar fyrir þær sakir að fólk viti ekki hvað það sé að nota því erfitt sé að áætla nikótínmagn í vökvunum sem notaðir eru í veipi.
Þó er ekki hægt að útiloka áhrif rafretta á sölu seinna meir, að hennar sögn, en eins og staðan er í dag er ekki sjáanlegur munur á henni. Hún segir nikótínlyf bráðabirgðalausn þegar fólk sé að hætta að reykja eða nota nikótín og að ekki eigi að vera mikið lengur á þeim en í eitt ár.
Nauðsynlegt að setja reglur
Brynjúlfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Artasan lyfjafyrirtækisins, tekur í sama streng og Bára. „Við höfum ekki séð minnkun í sölu á nikótínlyfjum,“ segir hann í samtali við Kjarnann. Hann telur að þau séu ekki beinir samkeppnisaðilar rafretta og segir að ekkert sanni að rafrettur hjálpi fólki að reykja. Rannsóknir hafi sýnt að átta af tíu sem nota rafrettur reyki einnig.
Hann segir að þau hafi óttast að fólk myndi leita í rafrettur til að reyna að hætta að reykja en salan segi aðra sögu. Hann telur því rafretturnar vera í óbeinni samkeppni við nikótínlyfin. Enn fremur telur hann að stjórnsýslan sé vanhæf því engar reglur séu til um notkun rafretta og nikótínvökva.
Brynjúlfur segir jafnframt að ekki sé vitað hvaðan stór hluti nikótínvökvans komi og að erfitt sé að vita styrk hans. Þess vegna sé nauðsynlegt að koma á einhvers konar regluverki í kringum þetta.